Umhverfið

Umhverfið

Akureyri er í 390 km fjarlægð frá höfuðborginni og 250 km frá Egilstöðum á Héraði. Bærinn stendur við lengsta fjörð landsins, Eyjafjörð, og er umlukin háum fjöllum. Akureyri er um 60 km suður af heimskautsbaugnum en þrátt fyrir það getur hitastigið náð 25°C yfir sumarið. Vetur geta verið snjóþungir og kaldir. Norðlæg staða Akureyrar hefur mikil áhrif á umhverfið. Verslun hófst hér á 16. öld en það var ekki fyrr en 1760 sem kaupmenn tóku upp fasta búsetu. Akureyri er stærsti byggðakjarni utan Reykjavíkur með um 16.000 íbúa. Menningarlíf blómstrar á Akureyri en þar er t.d sinfóníuhljómsveit, leikhús og listasöfn ásamt margskonar listviðburðum, veitingastöðum og næturklúbbum. Fjöldi verslana er í bænum sem bjóða fram merkjavörur. Háskólinn á Akureyri tók til starfa árið 1987. Lystigarðurinn var stofnaður 1912 af konum í bænum og þær önnuðust garðinn þar til bærinn tók við rekstrinum 1953. Nyrsti golfklúbbur landsins er á Akureyri. Golfmótið "Akureyri Open" er haldið í júní hvert ár og keppnin hefst á miðnætti. Leikið er til árla morguns. Menningarhúsið Hof ásamt tónlistarskóla er í byggingu á Akureyri og framkvæmdir eru á lokastigi (vor 2010).

Áhugaverðir Staðir

Akureyri er í nálægð við marga áhugaverða staði eins og Laufás, Goðafoss, Mývatn, Húsvík, Hrísey og Grímsey. Heimskautsbaugurinn liggur um Grímsey norðanverða.

Laufás í Grýtubakkahreppi

Laufás í Grýtubakkahreppi er 30 km frá Akureyri. Akið þjóðveginn á austurströnd Eyjafjarðar til norðurs. Á Laufási er merkilegur bóndabær frá 1840. Þessi burstabær er óvenju stór og hér bjuggu 20 til 30 manns í eina tíð. Hér er hægt að sjá hvernig fólk bjó á betri bæjum um miðja nítjándu öld á Íslandi. Gripir og húsbúnaður sem eru til sýnis eru ýmist frá staðnum eða safngripir úr gömlum bæjum í nágrenninu. Þetta var höfuðból og kirkjustaður og bjó að miklum hlunnindum. Margir menningarfrömuðir bjuggu hér og vel þekktur er séra Björn Halldórsson. Hann lét byggja þessi bæjarhús. Séra Björn var eitt af kunnustu sálmaskáldum landsins og samdi m.a. hinn fallega jólasálm ?Sjá himins opnast hlið?(1886). Fiskveiðar og æðarrækt voru stunduð frá Laufási. Kirkjan er frá 1865 með prédikunarstól frá 1698. Fyrstur presta hér var Ketill á árinu 1047.

Laufás í Grýtubakkahreppi

Draflastaðir

Draflastaðir er bær í Fnjóskadal. Kirkjan þar til forna var helguð Pétri postula. Núverandi kirkja er frá 1926. Þessi bær er nefndur í Sturlungu. Gamalt altarisklæði frá Draflastöðum er til sýnis í Þjóðminjasafninu. Það merkilega er að saumsporið á þessu teppi er nákvæmlega eins og á Bayeux-teppinu í Englandi sem er 58 cm breitt og 70 metrar á lengd. Bayeux-teppið lýsir orrustunni við Hastings 14. október 1066 þegar Vilhjálmur bastarður sigraði Harald Guðvinsson. Á árinu 1066 lýkur víkingaöldinni sem hófst 793 með orrustunni í Lindisfarne í Humbríu á Englandi.

Draflastaðir

Goðafoss

Goðafoss er 35 km frá Akureyri. Akið eftir þjóðvegi # 1 gegnum Vaðlaheiðargöng. Á leiðinni er ekið skamma stund um Fnjóskadal meðfram laxánni Fnjóská en síðan beygt inn í Ljósavatnsskarð. Skarðið er í raun dalur sem er opinn á báða enda milli Fnjóskadals og Bárðardals. Há fjöll eru á báða vegu og jökulruðningar frá síðustu ísöld liggja um þveran dalinn. Ljósavatn er í dalnum norðanverðum. Himbrimar sjást oft á þessu vatni. Himbriminn og lómurinn eru fuglar frá Norður-Ameríku er verpa hér. Hér stóð bær Þorgeirs Þorkelssonar lögsögumanns og Ljósvetningagoða en hann úrskurðaði árið 1000 að Kristin trú skyldi ríkja hér á landi. "Ef við slítum í sundur lögin þá slítum við líka friðinn," voru orð hans. Sagan segir að Þorgeir hafi varpað goðalíkneskjum í fossinn þegar hann kom heim af Alþingi eftir að hafa tekið Kristna trú. Gangið niður með ánni að Fosshóli og skoðið gatklettinn og hellinn sem notaður er til sólbaða á góðum dögum. Þegar þið komið að Mývatni (40 km frá Stórutjörnum) akið þið hjá Skútustöðum. Þar eru tvö hótel sitt hvoru megin við veginn. Stansið við Gíghótel og gangið inn á meðal gervigígana. Gangan endar við Sel-Hótel Mývatn. Gervigígar myndast þegar heitt hraun rennur yfir votlendi. Vatnið undir hrauninu yfirsýður og gufuþrýstingurinn þeytir upp hrauninu sem tætist sundur í gjall. Kringlóttir gígar myndast en þeir eru ekki gosgígar því engin gosrás er undir þeim. Oftast eru þessir gígar saman í þyrpingu sbr. Rauðhólar í nágrenni Reykjavíkur. Svona gígar finnast á fjórum stöðum á landinu og á plánetunni Mars en hvergi annars staðar svo vitað sé. Stærstu gervigígarnir eru eyjar í Mývatni. Þessir gígar mynduðust þegar Laxárhraun rann fyrir 2000 árum. Stærsta þyrping gervigíga eru í Landbroti í Vestur Skafatfellssýslu. Rauðhólar mynduðust þegar Leitahraun rann yfir votlendi fyrir 4700 árum. Gígarnir eru einstök náttúrufyrirbæri.

Goðafoss

Dimmuborgir

Haldið nú ferðinni áfram og akið um 5 km til austurs með hægri beygju inn að Dimmuborgum. Dimmuborgir urðu til fyrir 2000 árum í miklu eldgosi. Dimmuborgir eru leifar hringlaga hrauntjarnar sem varð til er hraun rann úr Lúdentsborgum og út í Mývatn. Yfirborð hraunsins var að storkna þegar heitt hraunið undir kólnandi skorpunni fann útrás og rann burt. Skorpan féll niður og það er hún sem við göngum nú á. Gufuopin sem í upphafi hleyptu gufunni út standa nú sem drangar í hraunbreiðunni. Víða má sjá hvernig skorpan skrapaði lóðrétt för í drangana er hún féll niður. ?Kirkjan? er hraunhellir sem gaman er að skoða. Margar og ólíkar hraunmyndanir birtast á hinum ýmsu gönguleiðum um Dimmuborgir. Haldið ykkur á merktum stígum. Það er auðvelt að villast. Stutt leið er merkt með bláu. Hinar lengri eru merktar með rauðu, gulu og hvítu. Margir skemmtilegir staðir eru í Dimmuborgum þar sem hægt er að snæða Eddu-bita. Náið ykkur í kort í þjónustuhúsinu áður en gangan hefst. Þetta er afar vinsæll ferðamannastaður og ætlað er að um þúsund manns komi hér daglega á sumrin.

Dimmuborgir

Mývatn

Mývatn er 40 km frá Stórutjörnum. Landslag Mývatns hefur mótast af eldgosum og hraunrennslum í þúsundir ára. Vatnið er 36.5 km2 og er þekkt fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Sautján tegundir af öndum eru á vatninu. Allar tegundir anda á Íslandi finnast á Mývatni og á Laxá. Meðal þeirra eru tvær tegundir frá Norður Ameríku sem verpa hér á landi en hvergi annars staðar í Evrópu en það eru húsöndin og straumöndin. Vatnið er grunnt og það gerir öndunum auðvelt að kafa eftir fæðu. Nafn vatnsins er frá mýflugunni. Tvær tegundir hennar eru hér og flugan er mikilvæg fæða fyrir fuglana. Kúlulaga grænþörungur (Vatnamýll/Vatnaskúfur) lifir á vatnsbotninum. Samskonar þörungar vaxa í vatninu Akan á eyjunni Hokkaido í Japan. Vatnamýll heitir Marimo á japönsku. Silungur er í vatninu og bændur veiða hann í net á sumrin en í gegnum ís á veturna. Í bakaleiðinni til Stórutjarna mælum við með stoppi í Gamalbæ í Reykjahlíð. Þar fæst hverabakað rúgbrauð með reyktum Mývatnssilungi. Frábær hressing með kaffi. Takið efir stóru hraunhólunum í hrauninu norðan við vatnið. Alþjóðlegt orð yfir þetta fyrirbæri er latneska orðið „tumulus“, fleirtala „tumuli“. Þegar hraun rennur kólnar yfirborðið en heita hraunið sem streymir undir ýtir yfirborðinu upp í hauga af þessari gerð. Þegar haugarnir kólna svo endanlega springa þeir. Þetta hraun rann árið 1724. Æðri plöntur hafa enn ekki skotið rótum. Grámosinn er smátt og smátt að myndar jarðveg en það tekur um þúsund ár fyrir jarðveg að myndast í hrauni. Þessar endur eru algengastar á Mývatni: Straumönd, húsönd, duggönd,skúfönd, toppönd og rauðhöfðaönd. Flórgoðinn er skrautleg önd sem er næstum horfin frá Mývatni nú. Þó má sjá hann einstaka sinnum í skurðum nálægt vatninu.

Mývatn

Jarðbaðshólarnir

Jarðbaðshólarnir eru taldir hafa myndast í gosin 1724. Svæðið er þekkt úr fornum ritum. Gísli Oddson biskup í Skálholti skrifaði um gufuna hér 1638. Guðmundur biskup góði taldi hana mjög heilsusamlega. Jarðböðin við Mývatn hófu rekstur árið 2004. Vatnið sem tekið er á 2500 metra dýpi er ríkt af steinefnum, kísil og hitaörveirum sem hafa góð áhrif á húðina. Húskynni og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Baðlónið er 5000 m2 og hitinn er 30-41°C. Njótið!

Jarðbaðshólarnir

Námafjall

Námafjall er háhitasvæði austan við Mývatn og hitinn hér er um 200°C á 1000 metra dýpi. Þetta svæði er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Svæðið er á sprungubelti sem liggur í gegnum Ísland frá suðvestri til norðausturs (Atlantshafshryggurinn). Hér eru bæði leirhverir og gufuhverir en engir vatnshverir. Gangið aldrei nær leirhver en þar sem ystu sletturnar enda. Fyrir alla muni gangið aldrei utan merktra svæða. Jarðskorpan er afar þunn og undir gæti leynst sjóðandi leir. Því miður hafa orðið mörg slys hér vegna þess að fólk hefur ekki farið eftir leiðbeiningum. Sjóðandi leir heldur áfram að brenna hörundið þar til hann er skolaður af með köldu vatni. Hér er bara ekkert kalt vatn. Brennisteinn var unnin hér á árum áður en hann var notaður til púðurgerðar í Evrópu og var útflutningsvara.

Námafjall

Krafla

Eldfjallið Krafla er á sömu sprungurein og Námafjall og Jarðböðin. Jarðvarmavirkjunin Krafla heitir eftir samnefndu eldfjalli í nágrenninu og er vel þess virði að skoða. Þar er sýnd kvikmynd um eldsumbrotin frá 1975 til 1984. Gosið var af og á í tíu ár, alls 21 umbrot. Plötuskilin milli Ameríku plötunnar og Evrópu-Asíu plötunnar gliðnuðu um níu metra. Hér er einnig sýnt hvernig svona gufuvirkjun verður til. Annar áhugaverður staður er gígurinn ?Víti? í suðvestur hlíð eldfjallsins Kröflu. Gígurinn er um 300 metrar í þvermáli. Hann varð til í mikilli sprengingu árið 1724 sem var upphaf Mývatnselda. Gosið stóð í fimm ár samfleytt og er lengsta stöðuga gos í sögu landsins. Vatnið í Víti sauð í um eina öld eftir gosið. Einnig er mjög áhugavert að fara í göngu inn í ?nýja?-hraunið sem rann á árunum 1975 til 1984. Hraunið er enn víða heitt eftir öll þessi ár.

Krafla

Húsavík

Húsavík er um 50 km frá Stórutjörnum. Íbúar eru um 2500. Nafnið Húsavík er sennilega elsta örnefni á Íslandi. Garðar Svavarsson sigldi umhverfis landið og sá að það var eyja. Hann byggði sér hús í vík við Skjálfandaflóa til vetursetu og nefndi víkina Húsavík. Húsavík er nú miðstöð hvalaskoðunar á landinu. Í Hvalasafninu er hægt að kynnast hvölum, hvalveiðum og hvalaskoðun. Fiskveiðar og fiskverkun er aðal atvinnuvegurinn hér ásamt síaukinni ferðaþjónustu. Kirkjan er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni og var reist árið 1907. Þá rúmaði hún alla íbúa í þorpinu. Kirkjan hefur verið tákn Húsavíkur í áraraðir. Akið upp á Húsavíkurfjall og njótið miðnætursólarinnar.

Húsavík

Áhugaverðir staðir á Akureyri

Davíðshús

Ættingjar Davíðs Stefánssonar skálds arfleiddu Akureyrarbæ að húsi Davíðs að Bjarkarstíg 6 er hann andaðist 1964. Íbúðin er eins og hún var er Davíð fór sína hinstu för. Bókasafnið inniheldur margar og merkar bækur. Á neðri hæðinni er aðstaða fyrir rithöfunda og fræðimenn til að sinna hugðarefnum sínum og hentugt að hafa slíkt fyrirmyndar bókasafn á staðunum.

Davíðshús

Sigurhæðir

Húsið Sigurhæðir var heimili skáldsins Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) er samdi m.a íslenska þjóðsönginn. Matthías byggði þetta hús 1903. Skrifstofur eru leigðar út til skálda og rithöfunda. Bókasafn Steingríms J. Thorsteinssonar hefur verið flutt í Sigurhæðir. Minningarsjóður Matthíasar rekur húsið og stendur fyrir margskonar menningarviðburðum.

Sigurhæðir

Nonnahús

Nonnahús var byggt 1849 og er nú í eigu Zontaklúbbs Akureyrar. Safnið er tileinkað Jóni Sveinssyni, Nonna (1857-1944) sem gerðist Jesúítaprestur og kennari. Nonna-bækurnar eru til sýnis svo og ýmsir munir úr eigu Nonna. Stytta af Jóni Sveinssyni er fyrir utan húsið.

Nonnahús

Fyrsta kirkja á Akureyri

Fyrsta kirkja á Akureyri var byggð árið 1862. Ný kirkja með tveimur turnum var reist 1941 og sú gamla rifin. En seinna var gömul kirkja úr héraðinu flutt á stað gömlu kirkjunnar og stendur hún nú við Nonnahús. Það eru 112 þrep upp til tveggja turna kirkjunnar en gangan er vel þess virði. Tveir af steindu gluggunum yfir altarinu eru úr dómkirkjunni í Coventry í Englandi. Skírnarfonturinn er gerður af Bertel Thorvaldsen. Aðrir steindir gluggar segja m.a. sögu kristni á Íslandi. Skip hangir niður úr lofti kirkjunnar: Þetta er danskur siður en skipið flytur þig inn í eilífðina. Ein önnur kirkja á Íslandi hefur skip með þessum hætti og er hún á Eyrabakka.

Fyrsta kirkja á Akureyri

Listasöfnin í Listagili

Gatan fyrir framan Hótel KEA og upp gilið heitir Kaupvangsstræti en er í daglegu tali kallað Listagil. Hér eru listasöfn, listaskóli og handverkstæði. Café Karólína er kaffihús í Listagili.

Listasöfnin í Listagili

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Hrísey

Hrísey er átta ferkílómetra eyja í Eyjafirði austan við Dalvík. Ferjan Sævar siglir margar ferðir á dag til Hríseyjar frá Árskógssandi. Árskógssandur er 35 km norðan við Akureyri við vestanverðan Eyjafjörð. Ferðin til Hríseyjar tekur 15 mínútur. Á suðurenda eyjunnar er 200 manna þorp en norðurhlutinn er í einkaeign og lokaður almennri umferð. Hvorki refir né minkar eru í Hrísey og söfnun eggja og fuglaveiði er stranglega bönnuð. Hér er því fuglaparadís og kjörin staður fyrir fuglaskoðara. Rjúpan gengur hér um götur, einkum á haustin. Hér er hún friðuð eins og aðrir fuglar. Um 35 tegundir fugla verpa í Hrísey og hér er stærsta kríuvarp í Evrópu. Þrjár áhugaverðar gönguleiðir eru í Hrísey. Sú græna er 2.3 km, sú gula 4.5 og loks er sú rauða 5km. Skilti meðfram gönguleiðunum gefa margvíslegar upplýsingar um umhverfið.

Hrísey

Grímsey

Grímsey er 5.3 km2 og er 41 km frá strönd landsins. Í Grímsey búa um 100 manns. Lífið hér er fiskur. Heimskautsbaugurinn liggur um eyjuna. Flugvöllur er á eyjunni og flogið er til og frá Akureyri. Grímsey er vinsæll ferðamannastaður á sumrin. Ferja siglir til Grímseyjar frá Dalvík. Dalvík er lítið þor í um 44 km fjarlægð frá Akureyri við vestanverðan Eyjafjörð. Fjölskrúðugt fuglalíf er í Grímsey og um 60 tegundir hafa sést þar. Fuglar og egg eru á matseðli eyjamanna. Íbúar Grímseyjar hafa verið miklir skákmenn í gegnum aldirnar. Auðugur Bandaríkjamaður, Willard Fiske (1831-1904) gaf íbúunum mörg skáksett og gott bókasafn um skák (1200 bækur). Hann arfleiddi íbúana einnig af 12.000 dollurum sem voru miklir peningar 1904. Willard Fiske dagurinn er haldinn hátíðlegur á hverju ári í Grímsey. Börn þar bera nafnið Willard.

Grímsey

Lystigarðurinn

Þessi fallegi og stóri garður (3.7 hektarar) er vinsæll bæði meðal heimamanna og ferðamanna. Um 4000 plöntur er til sýnis í garðinum. Hér vaxa allar íslenskar plöntur og fjöldi erlendra. Garðurinn er góður staður til að heimsækja og vera laus við ys og þys hins daglega lífs. Í garðinum eru mörg rjóður með bekkjum þar sem snæða má nesti og/eða lesa góða bók. Lystigarðurinn var stofnaður af konum í Akureyrarbæ árið 1912 og þær önnuðust garðinn þar til bærinn tók við rekstri hans 1953. 
Garðurinn er opinn frá 1. júní til 30. september frá kl. 08 til 22 en 09 til 22 um helgar.

Lystigarðurinn