Umhverfið

Egilsstaðir og nágrenni

Egilsstaðir er stærsta þéttbýli á Austfjörðum og stendur á bökkum Lagarfljóts. Íbúafjöldin er um 2300. Byggðin tók að þéttast um 1947 og þá sem þjónustumiðstöð fyrir bændabýlin á Fljótsdalshéraði. Staðsetningin var valin með tilliti til annarra Austfjarða og tenginga við vegakerfi landsins. Hér er nú miðstöð stjórnunar og samgangna. Egilsstaðaflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavík því stórar þotur geta lent hér. Þrjár ferðir eru milli Reykjavíkur og Egilsstaða daglega í innanlandsflugi. Leiguvélar frá Evrópu lendir hér á sumrin. Veðurfar er meira í áttina að meginlandsloftslagi vegna þess að köld hafgolan nær ekki að streyma hingað inn. Skógurinn, fossarnir og fljótið m.a. gera þennan stað áhugaverðan fyrir ferðamenn. Fjarlægðin frá Reyðarfirði til Egilsstaða um Fagradal er 33 km. Akið leið 92 alla leið.

Áhugaverðir staðir

Hallormsstaðarskógur

Hallormsstaðarskógur nær yfir 740 ferkílómetra svæði og er stærsta skóglendi landsins. Skógurinn er í um 25 km fjarlægð frá Egilstöðum austanmegin fljótsins. Næstum allt svæðið hefur verið verndað frá grasbítum síðan 1905. Skógræktin tók við svæðinu 1907. Stansið við Guðbrandslund (sjá kort) og gangið um lundinn. Elstu trén eru frá árinu 1938. Skilti eru meðfram göngustígum sem veita upplýsingar um einstök tré. Það eru um fimmtíu erlendar trjátegundir í Hallormsstaðarskógi en meginhluti er villtur birkiskógur. Fjölmargar gönguleiðir eru um skóginn. Skoðið einnig trjásafnið í Mörkinni. Kort af gönguleiðum má nálgast í gestamóttökunni.

Hallormsstaðarskógur

Lagarfljót

Lagarfljót er 145 km að lengd og hefst þar sem Jökulsá og Kelduá mætast við Valþjófsstaði. Í Lagarfljóti er stöðuvatnið Lögurinn. Dýpsti hluti fljótsins er 112 metrar en meðal dýpt er um 55 metrar. Fljótið var notað sem lendingarstaður fyrir flugbáta á árum áður. Samkvæmt þjóðsögum lifir vatnaskrímsli, sem heitir Lagarfljótsormurinn, í fljótinu. Fyrst er minnst á skrímslið í annálum á 14. öld. Skrímslið hefur sést endrum og eins og mynd af því er á vegg kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum. Nú á dögum sést ormurinn hinsvegar sjaldan en þegar hreyfing sést á vatnsfletinum, er það methangas að rísa úr setlögum fljótsbotnsins og myndar þá stórar bólur á vatnsfletinum.

Lagarfljót

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur er gamalt höfuðból með langa sögu. Upprunalega nafnið var Skriða þar til munkaklaustur af Ágústínusarreglu var stofnað hér 1493. Saga klaustursins varð ekki löng því það lagðist niður við Siðaskiptin og starfsemi var hætt 1552. Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson (1889-1975) byggði glæsilegt hús að Skriðuklaustri og settist hér að 1939. Hann bjó hér fáein ár eða þar til hann flutti til Reykjavíkur 1948. Þá gaf hann íslenska ríkinu jörðina og húsið. Í dag er reynt að láta húsið líta út að innan sem líkast því er Gunnar og fjölskylda hans bjó hér. Hér er nú fræðasetur og vinnuaðstaða fyrir rithöfunda, lista- og menntamenn. Gunnar kom til álita fyrir Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1918, 1921 og 1922 en var þá álitin of ungur. Hann kom aftur til álita 1955 en annar íslenskur höfundur, Halldór Laxness, hlaut Nóbelsverðlaunin það árið. Báðir töldu þeir að hinn væri næstbesti rithöfundur Skandinavíu. Gunnar skrifaði 37 bækur. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Níu hafa verið þýddar á ensku og frægastar þeirra eru Aðventa (The Good Shepherd) og Svartfugl (The Black Cliffs). Sagt er að þegar Ernst Hemingway hafði lokið lestri „The Good Shepherd“ þá hafi hann sest niður og skrifað Gamli Maðurinn og Hafið. Svo sterk voru áhrifin.

Skriðuklaustur

Végarður

Végarður er upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar fyrir Kárahnjúka og er opin frá maí fram í miðjan september. Þeir sem ætla að aka að Kárahnjúkum ættu að hefja ferðina hér. Saga verkefnisins er rakin með tölvutækni, í fjölda mynda og með fjölmiðlun. Hér er einnig að finna stórt líkan af svæðinu. Végarður er í aðeins eins kílómeters fjarlægð frá Skriðuklaustri. Spyrjið starfsfólk Végarðs um veðurspá og ástand vega áður en lagt er af stað inn á hálendið.

Kárahnjúkar

Kárahnjúkar er stærsta verkefni sinnar tegundar hér á landi fram að þessu. Framleiðsla virkjunarinnar fer öll til álvers Alcoa á Reyðarfirði. Aflið er 690MW sem framleitt er með sex túrbínum. Þrjár megin stíflur voru byggðar til að mynda uppistöðulónin. Stærst þeirra er stíflan við Hafrahvammsgljúfur sem er 730 m löng og 193 metrar á hæð. Þetta er grjótstífla klædd með steypu af svokallaðri CFRD gerð og er sú hæsta í Evrópu. Jarðgöng sem grafin voru eru samtals 73 km að lengd og tvö stálfóðruð fallgöng leiða vatnið frá inntakinu með 400 metra falli niður í túrbínurnar. Stöðin er djúpt inn í Teigsbjargi rétt austan við Valþjófsstað. Nánari upplýsingar fást í Végarði.

Kárahnjúkar

Valþjófsstaður

Kirkjustaðurinn Valþjófsstaður er gamalt höfuðból frá 14. öld. Margir merkir hlutir eru í kirkjunni svo sem kaleikur og oblátudiskur frá 18. öld. Merkasti gripurinn er geymdur í Þjóðminjasafninu í Reykjavík en það er Valþjófsstaðarhurðin. Útskurður hurðarinnar segir sögu af riddara sem bjargaði ljóni. Ljónið fylgir svo bjargvætti sínum til endaloka hans og liggur síðan á gröf hans. Hurðin er frá mun stærri kirkju fyrri alda og talið er að einn þriðji af hurðinni hafi glatast. Upprunalega hurðin er talin með merkustu útskurðum frá rómantíska tímanum í Skandinavíu. Eftirlíkingin sem er í kirkjunni á dag var skorin af Halldóri Sigurðssyni frá Miðhúsum. Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson fæddist hér árið 1889. Berggangurinn sem liggur skáhalt upp eftir Valþjófsstaðarfjalli heitir Tröllkonustígur.

Valþjófsstaður

Önnur atriði til ánægju

Miðhús

Miðhús eru bóndabær við ána Eyvindará nálægt Egilsstöðum. Mikið magn silfurs frá landnámsöld var grafið upp hér á árinu 1980 (41 gripur). Silfrið er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Listasafnið Eik er að Miðhúsum. Íslenskur handverknaður er þar til sýnis og sölu. Allir gripirnir eru unnir úr náttúruefnum af hagleiksfólki. Látið þennan stað ekki fara framhjá ykkur.

Fardagafoss

Fardagafoss er í raun tveir fossar og er um 5 km fjarlægð frá Egilsstöðum á leið 93 (vegurinn um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar). Gangan frá bílastæðinu tekur um 30 mínútur og er greiðfær nema síðasti spölurinn. Gljúfrið er áhugavert og útsýnið yfir Héraðið frábært. Neðan við fossinn er hellir og þar er gestabók sem allir eru hvattir til að skrifa í. Sagt er að nátttröll búi í hellinum og eigi þar tunnu fulla af gulli.

Húsey

Húsey er eyja milla ánna Jökulsár á Dal og Lagarfljóts úti við strönd Héraðsflóa (sjá kort). Húsey er annáluð náttúruparadís og er á Náttúruminjaskrá. Fuglalíf er afar fjölskrúðugt. Hestleiga er á bænum og með leyfi bónda er hægt að skoða selina á Seleyri við ströndina.

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Hengifoss

Hengifoss er meðal hæstu fossa landsins (129 m). Aðkoma að honum er rétt eftir bæinn Brekku í um 4 km fjarlægð frá Skriðuklaustri. Gilið er mjög myndrænt með steingervingum og brúnkolum. Rauðu löginn milli hraunlaganna er jarðvegur og sandsteinn sem hraunlögin hafa runnið yfir. Steingervingar af trjám sýna að mun hlýrra hefur verið hér á tertíer-tímabilinu en það hófst fyrir 25 miljón árum og endaði fyrir 600 þúsund eða 1 miljón árum. Þar sem elsta berg landsins er frá tertíer er það oft nefnt tertíerhraunlagastaflinn. Stærstur hluti hans er runninn frá þeim tíma þegar Snæfellsnesrekbeltið var virkt, frá 15-7 milljónum ára og eru hraunlög á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðvesturlandi, Vesturlandi og Snæfellsnesi að stórum eða mestum hluta komin frá því. Neðar í gilinu um hálfa leið eru fallegt stuðlaberg við foss sem heitir Litlanesfoss. Hellir er bak við fossinn og er hann aðgengilegur ef lítið vatn er í ánni. Gangan að Hengifossi er ekki mjög erfið og vel þess virði. Gleymið ekki myndavélinni.

Hengifoss

Atlavík

Atlavík er vinsælt tjaldsvæði á bökkum Lagarfljóts. Skipið Lagarfljótsormurinn siglir milli Egilsstaða og Atlavíkur. Frá Atlavík og í Hallormsstaðarskógi er margar gönguleiðir. Þær eru merktar gular, rauðar, grænar og bláar. Fáið ykkur kort af gönguleiðum í gestamóttökunni. Margar fallegar lautir eru í skóginum þar sem snæða má Eddu-bita.

Atlavík

Seyðisfjörður

Seyðisfjörður er áhugaverður staður til heimsóknar og af mörgum talin með fegurstu bæjum á Íslandi. Akið leið 93 um Fjarðarheiði (26 km). Brekkan er nokkuð brött að austanverðu. Sú hlíð heitir Stafir. Stansið á bílastæðinu í hlíðinni og skoðið hina fögru fossa í Fjarðará. Rafstöðin í ánni er frá 1913 og með þeim elstu á landinu. Hvergi á landinu er að finna jafn heillega byggð gamalla timburhúsa og á Seyðisfirði. Í þorpinu er fjöldi norskra húsa frá 19. öld og sömuleiðis frá árinu 1907. Norðmenn stunduðu síldveiðar héðan og sumir settust hér að. Íbúafjöldin er um 470 og hér var stærsti bær á Austfjörðum á 19. öld. Fjörðurinn er djúpur og langur (17 km) en láglendi takmarkað. Ein helst bækistöð Breta og Bandaríkjamanna var á Seyðisfirði í seinni heimstyrjöldinni. Olíuskipið El Grillo liggur á botni fjararins að norðanverðu. Skipinu var sökkt í loftárás Þjóðverja. El Grillo sýning er í elstu vélsmiðju landsins hér á Seyðisfirði. Sæsímastrengur kom hér á land 1906. Gangið um Suðurgötu og skoðið norsku húsin t.d. skólahúsið Suðurgötu 4 og mörg önnur. Sömuleiðis bláu kirkjuna en útsýnið þaðan er myndrænt. Menningarlíf á Seyðisfirði er öflugt og Skaftafell fer þar fremst í flokki. Listahátíðirnar Á Seyði og LungA eru árvissir viðburðir sem og Norskir dagar og tónleikaraðir Bláu kirkjunnar. Allt þetta ber vott um sköpunarkraft íbúa Seyðisfjarðar.

Seyðisfjörður