Umhverfið

Laugarvatn og nágrenni

Skólasetrið að Laugarvatni er í 73 km fjarlægð frá Reykjavík ef ekið er um Þingvelli en 92 km ef leiðin liggur um Hellisheiði. Að Laugarvatni eru margir skólar og má t.d. nefna barna- og grunnskóla, íþróttakennaraskóla sem stofnaður var 1932 og Menntaskóla frá 1953. Heimavistir skólanna eru notaðar sem sumarhótel. Mikill jarðhiti er á Laugarvatni og hitinn er notaður til upphitunar á húsnæði, til gufubaða og ylræktar. Fornar sagnir segja að sumir höfðingjar á Þingvöllum hafi ekki viljað skírast í köldu vatni Þingvalla árið 1000 heldur kosið heitar laugar að Laugarvatni. Ein þessara heitu lauga er Vígðalaug niður við vatnið. Munnmæli herma að þegar lík Jóns Arasonar og sona hans hafi verið grafin upp í Skálholti hafi þau verið flutt til Laugarvatns og þvegin við Vígðulaug áður en þau voru flutt til Hóla til greftrunar. Hjá lauginni eru nokkrir steinar sem kallaðir eru Líkasteinar. Á þeim stóðu líkbörur þeirra feðga. Laugarvatn sem er rúmlega 2 km2 er grunnt og gróðursælt. Heitar laugar eru víða í vatninu. Gnægð er þar af góðum silungi (bleikju) sem hótelin nýta sér á veitingastöðum sínum.

Áhugaverðir staðir í nágrenni Laugarvatns

Þingvellir

Þingvellir eru í 16 km fjarlægð frá Laugarvatni á leið # 365 og síðan um Gjábakkaveg. Aksturinn tekur um 20 mínútur yfir Lyngdalsheiði. Lyngdalsheiði er útdautt eldfjall (dyngja). Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman í lok júní árlega meðan bjartast var að nóttu. Þarna voru lög sett, dómar kveðnir upp og refsingum fullnægt. Þingið var jafnframt mótstaður vina og kunningja úr hinum ýmsu héruðum. Vöruskipti voru algeng, sögur sagðar og kvæði flutt. Lögsögumaður, kosinn til þriggja ára, stjórnaði þinginu. Hann flutti einn þriðja af lögunum í heyranda hljóði ár hvert. Þau voru fyrst rituð á tólftu öld á Breiðabólsstað þ.e. bæ Hafliða Mássonar eftir fyrirsögn hans og þáverandi lögsögumanns Bergþórs Hrafnssonar. Eftir stóra Suðurlandsskjálftann 1789 lagðist þinghald af á Þingvöllum. Þingið fluttu í núverandi þinghús í Reykjavík 1881. Þingvallavatn er stærsta vatn landsins (83.7 km2) og er eina vatnið sem vitað er um með fjórar tegundir af bleikju sem þróast hafa í vatninu frá lokum ísaldar. Þessar tegundir eru: murta, kuðungableikja, silungableikja og dvergbleikja. Stór urriði er einnig í vatninu. Fuglalíf á Þingvöllum er fjölbreitt. Tvö villt spendýr lifa þar, minkur og refur. Sögustaðurinn Þingvöllur á sér langa sögu. Kynnið ykkur sögu staðarins í fræðslu- og upplýsingamiðstöðinni á Hakinu. Fáið ykkur göngukort á Hakinu eða í Þjónustumiðstöðinni. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru á svæðinu t.d. heima að Hrauntúni og í Skógarkot. Njótið hinnar einstöku náttúrufegurðar og takið með ykkur nesti.

Þingvellir

Skálholt

Skálholt í Biskupstungum er í 17 km fjarlægð frá Laugarvatni. Fyrst er ekið eftir vegi #37, þá #35 og inn á leið #31. Skálholt er fornt biskupssetur og þar var vagga kristni og lærdóms í rúmlega 700 ár. Skálholt var í raun höfuðstaður landsins. Lærdómssetur var stofnað árið 1056 af Ísleifi Gissurarsyni en hann var biskup frá 1056 til 1080. Setrið var kallað Latínuskólinn. Í upphafi fengu prestar þar menntun sína og síðar nemar í háskólanámi. Skólinn var fluttur til Reykjavíkur 1796 og varð seinna Menntaskólinn í Reykjavík sem starfar enn. Horsteinn núverandi kirkju var lagður 1956 til að minnast þess að 900 ár voru liðinn frá því að Ísleifur Gissurarson tók vígslu. Forgöngumenn að því verki voru Sigurbjörn Einarsson biskup (1911-2008) og norski presturinn Odd Hope. Kirkjusmíðinni lauk árið 1963 og var kirkjan vígð sama ár. Kirkjunni bárust margar verðmætar gjafir frá öllum Norðurlöndunum. Kaupmaðurinn Ludvig Storr (1897-1979) í Reykjavik og bróðir hans Edwin í Danmörku stóðu fyrir söfnun þar. Danir gáfu orgelið, öll ljós, stóla og eina kirkjuklukku. Þeir lögðu einnig fram talsvert fé til að setja upp altaristöfluna eftir listakonuna Nínu Tryggvadóttur (1913-1968). Danir kostuðu einnig gerð og uppsetningu glugganna eftir listakonuna Gerði Helgadóttur (1928-1975). Norðmenn gáfu allt timbur til verksins, hurðir, gólfflísar, þakhellur og eina kirkjuklukku. Tvær kirkjuklukkur komu frá Svíþjóð og ein frá Finnlandi. Af átta klukkum í turninum eru því fimm frá Norðurlöndunum. Skírnarfonturinn er frá Færeyjum, höggvinn úr færeysku grjóti af þarlendum listamanni. Klukknaspilið er persónuleg gjöf frá Ludvig Storr. Mjög verðmætt bókasafn er í eldtraustri geymslu í turni kirkjunnar. Þar eru að finna mörg öndvegisverk íslenskra bókmennta. Má þar t.d. nefna eintak af Guðbrandsbiblíu, fyrstu heildarútgáfu Biblíunnar á íslensku, er Guðbrandur áritaði til dóttur sinnar. Skálholt á sér langa og viðburðarríka sögu sem áhugavert er að kynnast.

Skálholt

Geysir

Geysir er í 29 km fjarlægð frá Laugarvatni ef ekið er eftir leið #37. Geysir er sennilega best þekkti goshver heimsins því allir slíkir hverir á jörðinni eru nefndir eftir honum. Hverinn varð til í miklum jarðskjálfta árið 1294. .....“í Eyrarfjalli nálægt Haukadal urðu til heitir hverir og aðrir hurfu er verið höfðu þar,“ segir gamall Annáll. Goshver verður til þegar heitt vatn yfirsýður djúpt niðri í pípunni. Suðumark á 10m dýpi er 121°C. Þegar þrýstingur gufunnar er nægur þrýstist hún upp í pípunni og hverinn gýs. Margs konar þjónusta er í boði að Geysi.

Geysir

Gullfoss

Gullfoss er í 42 km fjarlægð frá Laugarvatni ef ekin er leið #37. Fossinn er í jökulsánni Hvítá sem rennur úr Langjökli og tengist lindánni Sogi í nágrenni Selfoss. Þriðja gerð áa á Íslandi eru dragár. Langjökull sést að hluta til á vinstri hönd þegar ekið er að Gullfossi. Jökullinn er næst stærsti jökull landsins (953 km2). Vatnajökull er stærstur (8300 km2). Mjólkurliturinn í ánni stafar af möl og leir sem áin flytur niður til strandar frá skriðjöklunum. Hvítá er 185 km að lengd. Gullfoss er tveggja þrepa foss. Efri fossinn er 10 metra hár og sá neðri 22 metrar. Gljúfrið er 70 metra djúpt og um 2.5 km að lengd. Best er að stöðva fyrst á efra plani við veitingastaðinn og ganga eftir stígnum til að skoða fossinn ofan frá. Gangið síðan niður stigann. Gætið fyllstu varúðar ef gengið er niður á klettana við fossinn. Þeir eru ósléttir og geta verið hálir í bleytu

Gullfoss

Annað áhugavert

Flúðasigling

Flúðasigling frá Drumoddsstöðum er afar vinsælt tómstundagaman. Drumboddsstaðir eru í um 30 km fjarlægð frá Laugarvatni (sjá kort). Siglt er á ánni Hvítá. Siglingarleiðin er um 7 km í gengum myndræn gljúfur og fjölda flúða. Hinar einstöku bergmyndanir við Brúarhlöð eru vinsælt myndefni. Margir þátttakendur skemmta sér einnig við að stökkva ofan af klettunum í fljótið.

Flúðasigling

Golfvöllurinn

Golfvöllurinn í Miðdal er skammt frá hótelunum á Laugarvatni. Í Miðdal er níu holu völlur –par 70 (35/35). Veitingar eru í boði. Einnig er hægt að taka með sér Eddu-bita frá hótelunum. www.golf.is/gd Annar völlur er í Úthlíð á sömu leið þ.e. # 37. Þetta er einnig níu holu völlur – par 70 (35/35). Kylfur eru til leigu og veitingar í boði. www.golf.is/gu Þá er og golfklúbbur við Geysi. Níu holur – par 74. Kylfur eru til leigu. www.golf.is/gey

Golfvöllurinn

Skógurinn

Það hefur lengi verið venja að nemendur á Laugarvatni planti trjám í lok skólaárs. Þessi siður hefur verið í meira en hálfa öld. Í skóginum eru mörg falleg rjóður þar sem hægt er að sóla sig á góðum degi og snæða Eddu-bita í friði og ró.

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Vellankatla

Norðaustur horn Þingvallavatns (Vellankatla) er ákaflega fallegur staður í skemmtilegu landslagi. Hér er annað mesta innstreymi lindarvatns inn í Þingvallavatn. Tilvalin „picnic“ staður með frábæru útsýni yfir vatnið. Skógurinn í Haukadal rétt innan við Geysi. Haukadalur var valdastóll á elleftu og tólftu öld. Ari fróði Þorkelsson skrifaði Íslendingabók hér árið 1122. Danskur maður, Kristian Kirk, keypti Haukadal árið 1938 og hóf þar skógrækt. Seinna gaf hann íslenska ríkinu jörðina og kirkjuna.

Faxi

Fossinn Faxi í Tungufljóti er skammt frá vegi #35 (sjá kort). Faxi er um 12 km frá Geysi og 8 km frá Skálholti. Stuttur malarvegur er að svæðinu og fossinn sést ekki fyrr en komið er fram á brúnina. Gangið niður að fossinum og horfið á laxinn stökkva upp laxastigann. Skáldið Stephan G. Stephansen gaf fossinum nafn. Faxi er vinsæll útivistarstaður.

Faxi

Kvöldgöngur

Meðan á dvölinni að Laugarvatni stendur mælum við með göngu að Vígðulaug. Síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi, Jón Arason og synir hans tveir (Ari og Björn) voru hálshöggnir að Skálholti án dóms og laga þann 7. nóvember 1550. Líkin voru urðuð við kirkjuvegginn. Bændur að norðan komu suður, grófu líkin upp og fluttu að Laugarvatni. Þar voru líkbörurnar settar niður á Líkasteina við laugina og þvegin áður en haldið var áfram til Hóla þar sem þeir feðgar fengu virðulega útför. Á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi árið 2000 voru þrjú börn skírð við Vígðulaug.

Kvöldgöngur

Fjallganga

Laugarvatn er umlukið fjöllum að norðri og austri. Áhugavert fjall er Miðdalsfjall með Gullkistuna efst (678m). Frá Gullkistunni er frábært útsýni. Þjóðsagan segir að í tindinum sé gullkista falin en aðeins er hægt að ná henni þegar tveir bræður frá Miðdal ganga á fjallið án þess að líta til baka, hugsa eitthvað illt og án þess að segja orð. Kistan opnaðist fyrir langa löngu en þá virtist hún full af laufum. Annar bræðranna fyllti vettlinga sína og laufin breyttust í gull þegar þeir náðu heim á ný. Fylgið jeppaslóðinni mestan hluta leiðarinnar.