Þjóðsögur

Þjóðsögur frá Vesturlandi

Hið heilaga fjall hinna þriggja óska

 Yfirnáttúrulegur kraftur býr í fjallinu Helgafelli (Hinu heilaga fjalli) í nágrenni Stykkishólms. Fjallið var álitið heilagt til forna og þar mátti hvorki bana manni né skepnu. Fólk trúði því að það mundi fara inn í fjallið við andlátið. Munkaklaustur var stofnað að Helgafelli árið 1184 en klaustrið var brennt til grunna af mótmælendum við Siðaskiptin 1550. Lúthersmenn brenndu þar mörg fágæt handrit. Fólk gengur á fjallið án þess að segja orð og ekki má það snúa sér við eða líta til baka. Þegar upp er komið er gengið að rústum bænahússins og snúa skal til austur mót rísandi sól. Þar skal bera fram í hljóði, þrjár óskir. Óskirnar verða að vera jákvæðar og engum til ills. Aldrei má segja hverjar óskirnar voru. Sé þessum einföldu reglum fylgt munu óskirnar rætast. Þetta gildir aðeins um fyrstu göngu á fjallið.

Hið heilaga fjall hinna þriggja óska

Álfakirkjan í Tungustapa

 Í lokakafla Eyrbyggju er sagt frá því að kirkjan í Sælingsdalstungu var flutt, kirkjugarðurinn grafinn og bein manna tekin upp, t.d. Snorra goða og Barkar digra; það var á dögum Guðnýjar húsfreyju í Hvammi, móður þeirra Sturlusona, því söguritarinn segir, að hún hafi verið viðstödd og hefur eftir henni það, sem greint er um stærð beinanna. Sagan talar ekkert um, hvers vegna kirkjan var flutt úr stað, en í Dölum gengur þessi saga um tilefnið til flutningsins. Sagan er með lengstu álfasögum og segir frá Tungustapa sem er hæð inn í Sælingsdal nálægt bænum Sælingsdalstungu. Talið var að þetta væri dómkirkja álfanna og annarra vera sem í jörðinni búa. Á kvöldin þegar sól er lágt á lofti speglast hún í klettunum og sýnist þá að stapinn sé baðaður ljósi. Sagan segir frá tveimur bræðrum Sveini og Arnóri sem áttu heima í Sælingsdalstungu. Það var háttur drengjanna á bænum að renna sér á sleðum niður stapann þegar snjór var á jörðu. Sveinn tók aldrei þátt í þessum leik. Hann var einfari en dvaldi oft niður við Tungustapa. Það var mál manna að hann hefði samband við álfa. Sveinn hvarf á hverri nýársnótt. Eitt sinn fór Arnór að leita hans og skyndilega opnaðist Tungustapi og inni var sem í kirkju að sjá. Ljómuðu þar margar ljósaraðir. Það virtist sem vígja ætti Svein einhverri vígslu, því margir skrýddir menn stóðu umhverfis. Arnór kallaði til hans að koma út. Álfapresturinn skipaði að dyrum skyldi lokað og sagði að næst þegar Sveinn sæi sig mundi Sveinn hníga niður örendur. Álfarnir eltu Arnór á hestum og riðu á hann ofan, og lá hann eftir nær dauða en lífi. Bóndinn á Laugum fann Arnór síðar er hann kom til óttusöngs og var Arnór með rænu en mjög aðframkominn; sagði farir sínar um nóttina og féll dauður niður. Brekkurnar heita síðan Banabrekkur. Sveinn gekk í klaustur á Helgafelli. Söng hann svo fagurlega messu, að enginn þóttist jafnfagurt heyrt hafa. Faðir Sveins var tekinn að eldast og bar Svein að syngja sér messu á páskadag og kvaðst hann vilja andast í messu þeirri. Meðan Sveinn söng messuna blés upp stormur og kirkjuhurðin hrökk upp og sá Sveinn beint inn í Tungustapa. Sveinn féll niður og dó og faðir hans augnabliki síðar. Kirkjan var nú færð þannig að bæjarhúsin eru milli staðarkirkju og álfakirkjunnar. Við mælum með Þjóðsögum Einars Ól. Sveinssonar og Jóns Árnasonar.

Álfakirkjan í Tungustapa