Umhverfið

Laugar í Sælingsdal og nágrenni

Laugar

Til að ná fram til Lauga (Sælingsdalslaugar) er best að aka leið 60 frá Búðardal og taka síðan vinstri beygju inn á leið 589 til Sælingsdals eftir um 16 km. Hótel Edda Laugar eru til vinstri rétt eftir vegamótin. Sælingsdalur er frjósamur dalur umluktur lágum fjöllum.

Laugar

Sælingsdalstunga

Bændabýlið Sælingsdalstunga, sem er til hægri, var sögustaður fyrir neðan fjallið Tungumúla. Þetta var kirkjustaður frá tíundu öld fram til 1853. Höfðinginn og lögsögumaðurinn Snorri Þorgrímsson (963-1031) byggði fyrstu kirkjuna samkvæmt Eyrbyggju. Kirkjan var helguð almáttugum Himnaföður, Heilagri Guðsmóður og Jóhannesi skírara. Rústir þessarar fornu kirkju eru enn sýnilegar. Stór hluti Laxdælasögu gerist í héraðinu. Guðrún Ósvífursdóttir söguhetjan í Laxdælu skipti á búum við Snorra goða og flutti héðan að Helgafelli nálægt Stykkishólmi á Snæfellsnesi eftir að Bolli hafði verið veginn. Bolli hafði áður drepið Kjartan Ólafsson eins og kunnugt er.

Sælingsdalstunga

Tungustapi

Tungustapi sem þekktur er úr samnefndri álfasögu er í landi Sælingsdalstungu. Sælingsdalslaug – Laugar – var bær Ósvífs föður Guðrúnar. Þar eru heitar laugar sem notaðar eru til upphitunar húsa og sundlaugar. Laxdæla segir frá því að fólkið hafi notað hinar heitu laugar til baða. „Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svá til, at Guðrún var at laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu, því at hon var bæði vitr og málsnjöll.“ (Laxdæla – 39. Kafli – Guðni Jónsson). Forn steinstokkur sýnir hvernig vatnið var leitt til laugarinnar. Minjasafn er í skólahúsinu. Skólahúsin eru nýtt sem sumarhótel.

Tungustapi

Áhugaverðir staðir

Eiríksstaðir í Haukadal

 Akið um 10 km til suðurs á leið 60 og beygið til vinstri inn á leið 586. Eftir um það bil 13 km koma Eiríksstaðir í ljós. Sagan af Eiríki rauða og konu hans Þjóðhildi segir okkur að þau hafi búið hér í eina tíð. Eiríki hafði verið vísað úr Noregi vegna manndráps. Hann flutti til Íslands og settist að á Ströndum í upphafi en flutti svo suður í Haukadal og setti upp bú á Eiríksstöðum rétt innan við Haukadalsvatn. Ekki varð dvölin hér löng því enn á ný var hann brottrækur fyrir manndráp og önnur grimmdarverk. Hann hafði fregnir af Gunnbjarnarskerjum vestur af Íslandi og leitaði þangað. Hann dvaldi í landinu í þrjú ár og nefndi það Grænland. „Land verður að hafa gott nafn svo fólk vilji flytja þangað,“ sagði hann. Tuttugu og fimm skip héldu áleiðis til Grænlands 985. Fjórtán náðu landi en hin ýmist snéru til baka eða fórust í hafi. Kaupmaðurinn Bjarni Herjólfsson var fyrstur til að sjá meginland Norður Ameríku en gekk ekki á land. Leifur sonur Eiríks keypti skip Bjarna og hét vestur um haf frá Grænlandi og var fyrstur Evrópumanna til að ganga þar á land. Aðrir Íslendingar eins og Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir reyndu landnám en sneru burt eftir ófrið við innfædda. Guðríður ól son sinn Snorra í Norður Ameríku og er hann fyrsti Evrópubúinn sem fæðist þar. Freydís systir Leifs og hennar fólk reyndu búsetu í Norður Ameríku en það fórst fyrir. Eftirlíking af bæ Eiríks að Eiríksstöðum stendur um það bil 100 m frá gömlu bæjarrústunum. Starfsfólk klæðist búningum landnema eins og ætlað er að þeir hafi verið á 10. öld. Langeldur brennur í húsinu.

Eiríksstaðir í Haukadal

Búðardalur

Þorpið Búðardalur er 16 km frá Laugum. Íbúafjöldinn er um 260. Þorpið stendur við innanverðan Hvammsfjörð. Laxdæla segir að Höskuldur Dala-Kollsson hafi lagt skipi sínu hér eftir síðustu ferðina til Noregs og byggt hér búðir. Þannig varð nafnið til. Verslun hefur verið í Búðardal frá 1899. Búðardalur er þjónustumiðstöð fyrir bændur í Dalasýslu. Ferðaþjónusta í Dölum eykst stöðugt. Stutt er héðan að Höskuldsstöðum þar sem Höskuldur Dala-Kollsson bjó og að Hjarðarholti bæ Ólafs pá sonar hans. Báðir eru þeir þekktar persónur ú Laxdælasögu. Önnur fræg persóna í sögunni er Hallgerður langbrók systir Ólafs pá.

Búðardalur Búðardalur

Hvammsfjörður

Hvammsfjörður gengur inn úr Breiðafirði og er 45 km langur og 10 til 12 km breiður. Innsti hluti fjarðarins snýr til norðurs og á korti er hann eins og stígvél. Mikil fjöldi eyja er yst í firðinum og sigling inn fjörðinn er háskaleg og veltur á flóði og fjöru. Straumurinn í mynni fjarðarins er svo sterkur að minni bátar eiga í erfiðleikum á útfallinu. Innfjörðurinn er djúpur. Afar lítil veiði er í firðinum og frís hann oft á vetrum.

Hvammsfjörður

Laxdæla

Laxdæla saga er saga ættar og er ein af 43 fjölskyldusögum í hinu merka safni Íslendingasögur. Allir sem heimsækja Dalasýslu ættu að lesa Laxdælu og lifa sig svo inn í söguna. Sagan er rituð á skinn og er varðveitt í Möðruvalabók. Blekið var unnið úr ýmsum jurtum svo sem sortulyngi. Svanafjaðrir voru ritfærin. Laxdæla er ein af hinum merkari Íslendingasögum og talið er að hún hafi verið skráð um miðja 13. öld.Ekkert er vitað um höfundinn frekar en höfunda annarra sagna. Þó ætla menn að Snorri Sturluson hafi sagt fyrir um Egilssögu. Um það eru þó engar sannanir. Laxdæla hefst með landnámi Auðar djúpúðgu um 890 og sögunni lýkur með dauða Gellis Þorkelssonar 1073. Auður settist að í Hvammi. Hetja Laxdælu er Guðrún Ósvífursdóttir sem þekkt var fyrir fegurð og gjörvileika. Biðlar hennar voru Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson. Guðrún unni Kjartani en giftist Bolla þegar orðrómur barst hingað að Kjartan væri trúlofaður Ingibjörgu systur Ólafs Tryggvasonar. Hatur varð síðar með þeim fóstbræðrum Kjartani og Bolla sem lauk með því að Bolli drepur Kjartan. Synir Kjartans drepa síðan Bolla fyrir áeggjan móður sinnar Þorgerðar Egilsdóttur en hún var dóttir Egils Skallagrímssonar. „Þorgerður svarar máli Bolla ok sagði eigi spara þurfa at vinna ógrunsamliga at við Bolla, bað þá ganga milli bols og höfuðs. Bolli stóð þá enn upp við selsveginn ok helt at sér kyrtlinum, at eigi hlypi út iðrin. Þá hljóp Steinþór Óláfsson at Bolla og hjó til hans með öxi mikilli á hálsinn og herðarnar, og gekk þegar af höfuðið. Þorgerður bað hann heilan njóta handa, kvað nú Guðrúnu mundu eiga at búa um rauða skör Bolla um hríð.“ (Laxdæla 55. Kafli – Guðni Jónsson). Laxdæla hefur hlotið mikið lof sem góðar bókmenntir, með frábæran söguþráð og mannlýsingar. Sagan er söguleg skáldsaga (epísk). Sennilega er hún byggð á raunverulegum atburðum.

Laxdæla

Hvammur

Hvammur er sögulegt höfuðból og kirkjustaður um 6 km frá Laugum. Auður djúpúðga nam hér land um 890. Hún var dóttir Ketils flatnefs úr Noregi. Auður giftist Ólafi hvíta, konungs Dyflinar, og þeirra synir voru Ólafur feilan og Þórður gellir. Minnisvarði um Auði er á Krosshóli nærri bænum. Auður bað bænir sínar á þessum stað. Hún var kristin eins og margir norrænir menn sem búið höfðu á Írlandi. Hvamm-Sturla Þórðarson og Guðný Böðvarsdóttir foreldrar Snorra Sturlusonar bjuggu í Hvammi á 12. öld og Snorri fæddist hér 1179. Snorri var sagnfræðingur, skáld og rithöfundur og mikill pólitíkus. Hann var tvisvar kosinn lögsögumaður á Alþingi. Snorri er höfundur Snorra Eddu og Heimskringlu, sögu Noregskonunga. Heimskringla er í raun saga Skandinavíu á fyrri hluta miðalda. Þegar Noregur losnaði undan valdi Svía 1905 sendi norska ríkisstjórnin Heimskringlu inn á þúsundir heimila til að efla þjóðerniskennd Norðmanna. Heimskringla er safn konungasagna og er þar fjallað um konunga Noregs frá Hálfdani svarta (um 850) fram til Sverris konungs, sem var við völd á seinustu áratugum 12. aldar. Heimskringla er helsta heimildin um sögu Noregs á þessum öldum og hefur haft mikil áhrif á þjóðarímynd Norðmanna. Talið er að Snorri hafi byrjað á verkinu þegar hann kom heim frá Noregi árið 1220. Norðmenn reistu styttu af Snorra í Bergen 1938. Árið 1947 gáfu Norðmenn Íslendingum styttu af Snorra Sturlusyni sem Gustav Vigeland hafði gert árið 1914 og stendur í Reykholti. Vísindamenn telja að Snorri hafi skrifað Egilssögu þótt ekki sé hægt að sanna það. Snorri var myrtur í Reykholti 23. September 1241 að áeggja Gizurar Þorvaldssonar fyrrverandi tengdasonar hans. Félagi Gizurar, Árni beiskur, framdi glæpinn.

Hvammur

Önnur atriði

Njótið sundlaugarinnar og heita pottsins eftir erfiðan ferðadag.

Ganga að Tungustapa

 Eyrbyggja segir frá því að kirkja hafi veið flutt til í Sælingsdalstungu og garðurinn grafinn upp og þar með bein Snorra goða. Þetta var gert þegar Guðný móðir Snorra Sturlusonar var viðstödd. „Snorri goði andaðist í Sælingsdalstungu einum vetri eftir fall Ólafs konungs ins helga. Hann var þar jarðaður at kirkju þeiri, er hann hafði sjálfr gera látit. En þá er þar var kirkjugarðr grafinn, váru bein hans upp tekin ok færð ofan til þeirar kirkju, sem nú er þar. Þá var viðstödd Guðný Böðvarsdóttir, móðir þeira Sturlusona, Snorra, Þórðar og Sighvats, ok sagði hún svá frá, at þat væru bein meðalmanns ok ekki mikil.“ (Eyrbyggja saga 65. Kafli – Guðni Jónsson) Sagan segir ekki hvers vegna kirkjan var flutt en Dalamenn vita betur og vísa til þjóðsögunnar um Tungustapa. Gestamóttakan á Hótel Eddu leiðbeinir um gönguleið að Tungustapa.

Ganga að Tungustapa

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Skarðströnd - Fellsströnd

Skemmtileg ökuferð er umhverfis Klofningsnes. Akið til norður á leið 60 um 20 km og beygið síðan til vinstri inn á veg númer 590. Heildar vegalengdin til Lauga aftur er um 83 km. Takið með ykkur nesti t.d. Eddu-bita því margir staðir á leiðinni veita tækifæri til útiveru og til að virða eyjarnar fyrir sér. Í fyrstu er ekið um Skarðströnd. Til hægri eru Akureyjar, þrjátíu að tölu. Aðeins framundan er bærinn Skarð til vinstri. Þessi kirkjustaður var álitinn bestur bæja við Breiðafjörð. Þetta er gamalt höfuðból með hlunnindi í mörgum eyjum og skerjum. Bændur á Skarði voru flestir vel auðugir, Þekktust á miðöldum voru Björn Þorleifsson, hirðstjóri og Ólöf ríka kona hans. Bretar drápu Björn á Rifi á Snæfellsnesi 1467. Hefnd Ólafar var að handtaka 50 Englendinga og hafa þá sem þræla á Skarði. Meðal verka þeirra var að leggja steinstétt að Skarðskirkju, sem enn sér fyrir. Ólöf taldi Danakonung á að hefja stríð við England og er hún eina konan sem komið hefur á styrjöld milli tveggja þjóða. Fáið leyfi til að skoða kirkjuna. Altaristaflan er stórmerkileg. Ólöf ríka gaf kirkjunni hana á 15. öld. Góð höfn er niðri við ströndina. Gangið þangað og njótið útsýnisins. Tvö af okkar bestu handritum og vel skreytt eru frá Skarði og þau kallast Skarðsbók Jónsbókar og Skarðsbók postulasagna. Skarð hefur verið í eigu sömu ættar allt frá 11. öld og sennilega frá landnámi.

Skarðströnd - Fellsströnd

Dagverðarnes

Þegar Auður djúpúðga og hennar lið var að leita að öndvegissúlunum settust þau niður á nesi nokkru og snæddu þar dagverð. „Ok um várit fór hon yfir Breiðafjörð ok kom at nesi nökkuru, ok átu þar dagverð. Þat er síðan kallat Dögurðarnes, ok gengur þat af Meðalfellsströnd. (Laxdæla 5. Kafli – Guðni Jónsson)“ Venja var að varpa öndvegissúlum fyrir borð og láta goðinn velja bústað. Dögurður/ dagverður merkir morgunmatur. Litla kirkjan á nesinu var byggð 1933 og efni úr kirkju frá 1848 var notað. Bænahús var hér á 13. öld en fyrsta sóknarkirkjan var reist 1758. Eyjarnar úti fyrir ströndinni tilheyrðu sókninni en sóknarbörnum fer fækkandi og aðeins eru eftir þrjár manneskjur nú. Kirkjan er vernduð og í umsjón Þjóðminjasafnsins. Útsýnið til eyjanna er markvert. Það eru 2700 eyjar á Breiðafirði.

Dagverðarnes