Umhverfið

Neskaupstaður og nágrenni

Neskaupstaður er einn stærsti þéttbýlisstaður á Austurlandi og stendur við Norðfjörð (íbúar um 1400). Landnámabók segir okkur að Egill rauði hafi numið hér land. Verslun hefur verið í Neskaupstað síðan 1895 en það var ekki fyrr en 1949 að staðurinn komst í vegasamband. Allur flutningur fram að þeim tíma var um sjóleiðina. Fiskveiðar og vinnsla sjávarafurða eru aðal atvinnuvegirnir. Fyrsti vélbáturinn kom hingað 1905. Nálægð við gjöful fiskimið gerði Neskaupsstað mikilvægan í flutningi fisks til Englands í síðari Heimsstyrjöldinni. Læknisþjónusta fyrir sjómenn var einnig mikilvæg og hér var stofnað Fjórðungssjúkrahús. Síldarvinnslan var stofnuð 1957 í upphafi „síldarævintýrisins“ en það er langstærsta fyrirtækið á staðnum í dag og jafnframt eitt stærsta útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki landsins. Steingervingar af 12 miljón ára gömlum trjám hafa fundist í Rauðuskriðum við Norðfjörð. Hrikalegt snjóflóð varð 12 manns að bana árið 1974. Talsverðar breytingar á landslagi ofan byggðar hafa verið gerðar til að hindra frekari flóð. Fyrsta náttúruverndarsvæði á landinu var stofnað hér árið 1972. Fjarlægðin frá Höfn í Hornafirði til Neskaupstaðar í Norðfirði er 269 km. Á leiðinni eru margir áhugaverðir staðir.

Áhugaverðir staðir á leiðinni til Neskaupstaðar

Austfirðir og vestasti hluti Vestfjarða er elstu hlutar landsins eða um 16 miljón ára. Það eru 17 útkulnuð eldfjallasvæði á Austfjörðum og í hverju þeirra er megineldstöð. Þegar ekið er frá Hornafirði um Lón til Álftafjarðar er í raun ekið í gegnum ævafornt eldfjall. Jöklar, ár og uppblástur hafa rutt burt gosefni og birt okkur djúpberg eins og Vesturhorn.

Álftafjörður

Syðsti fjörður Austfjarða heitir Álftafjörður. Álftafjörður er í raun lón sem lokað er með sandrifi. Hundruð álfta eiga hér samastað og hreiður. Njáls saga segir frá dvöl trúboðans Þangbrands á þessum slóðum en hann var sendur hingað af Ólafi Tryggvasyni til að boða landsmönnum kristna trú. Þangbrandur reisti sér tjald að Þvottá. Þar skírði hann heimilisfólk. Í Heimskringlu Snorra segir svo: „Þá er Ólafur konungur Tryggvason hafði verið tvo vetur konungur að Noregi var með honum saxneskur prestur, sá er nefndur er Þangbrandur. Hann var ofstopamaður mikill og vígamaður en klerkur góður og maður vaskur. En fyrir sakir óspektar hans þá vildi konungur eigi hann með sér hafa og fékk honum sendiferð þá að hann skyldi fara til Íslands og kristna landið. Var honum kaupskip fengið og er frá hans ferð það að segja að hann kom til Íslands í Austfjörðu í Álftafjörð hinn syðra og var eftir um veturinn með Halli á Síðu. Þangbrandur boðaði kristni á Íslandi og af hans orðum lét Hallur skírast og hjón hans öll og margir aðrir höfðingjar en miklu fleiri voru hinir er í móti mæltu. Þorvaldur veili og Veturliði skáld ortu níð um Þangbrand en hann drap þá báða. Þangbrandur dvaldist tvo vetur á Íslandi og varð þriggja manna bani áður hann fór í brott.“ (Heimskringla – Snorri Sturluson).

Álftafjörður

Djúpivogur

Djúpivogur er lítið fiskiþorp við samnefndan vog (íbúar 390). Þjóðverjar hófu hér verslun 1589. Hið aldna hús Langabúð (rauð bygging) er verslunarhús frá 1790. Fjallið Búlandstindur (1070 m) gnæfir yfir þorpið og setur mikinn svip á umhverfið. Djúpivogur er ákjósanlegur til fuglaskoðunar. Fugla- og steinasafn var opnað árið 2002. Í safninu eru 130 uppstoppaðir fuglar bæði staðfuglar og flækingar. Hreiður og egg eru einnig til sýnis ásamt bókum og myndum af fuglum. Mikið af áhugaverðum steinum og holufyllingum frá svæðinu er einnig til sýnis. Safnið er opið daglega frá 10 til 18

Djúpivogur

Berufjörður

Berufjörður er stór fjörður norðan við Djúpavog. Hér eru mörg há og falleg fjöll úr rhyólíti (áður kallað líparít) og þess vegna litskrúðug. Rhyólít (ljósgrýti, líparít) er dulkornótt gosberg sem telst með vissum hætti til sérkenna Íslands því það finnst óvíða á úthafseyjum nema hér. Nafnið er dregið af eynni Lípari á Ítalíu en nú er algengara að nefna bergið "rhyólít." Bráðin myndast í rótum megineldstöðva og er kísilrík (súr) og þar af leiðandi mjög seigfljótandi. Bergið er oftast straumflögótt og brotnar upp í flögur við veðrun. Rhyólít skífur voru löngum notaðar í þök torfbæja og í seinni tíð sem vegg- og gólfflísar. Sjaldgæf tegund af rhyólíti svonefnd flikruberg finnst í Berufirði og er það grænleitt á litinn. Flikruberg verður til í Pelé-eldgosum þegar eldský flæða niður hlíðar eldfjallsins. Þetta gerist þegar fjallshlíðin springur út og gífurlegt magn af gosefni gusast út. Þjóðsagan segir frá þeim tröllahjónum Beru og Sóta í Berufirði. Mörg örnefni á Austfjörðum tengjast Beru. Sjóræningjar frá Alsír kallaðir Tyrkir réðust á kirkjustaðinn í botni fjarðarins árið 1627. Þeir drápu allt fólkið og brenndu bæinn til grunna.

Berufjörður

Breiðdalsvík

Breiðdalsvík er lítið þorp við samnefnda vík. Fiskveiðar og fiskverkun er aðal atvinnan ásamt þjónustu við ferðamenn. Utan við ströndina eru smáeyjar sem tilheyra Heydölum þar sem hundruð æðarfugla eiga sér hreiður og mikið magn sela liggja á skerjum. Hótel Bláfell er vinsæll ferðamannastaður sem selur þjóðlega íslenska rétti. Í Breiðdalsvík er mesta láglendi á Austfjörðum og fjöllin með þeim hæstu (1100 -1200 metrar). Prestsetrið Heydalir var lengi eftirsótt brauð vegna hlunninda sem fylgdu staðnum. Í Heydölum var kirkja á kaþólskum tíma. Þekktastur klerka í Heydölum er séra Einar Sigurðsson (1538-1627). Hann var skáld gott og eftir hann er jólasálmurinn -„Nóttin var sú ágæt ein.“ Séra Einar rak sjóræningjana á flótta 1627 með skáldskap – segir sagan. Næsti fjörður norðan við Breiðdalsvík er Stöðvarfjörður. Hér er lífið fiskur eins og í öðrum sjávarþorpum á Austfjörðum. Steinasafn Petru er staður sem allir verða að heimsækja. Hér er fjölskrúðugasta steinasafn landsins. Petra hefur safnað öllum þessum steinum í fjöllunum í kring og borið þá til byggða.

Breiðdalsvík

Fáskrúðsfjörður

Fáskrúðsfjörður er um 600 manna bær á Austfjörðum. Hér var miðstöð franskra skútusjómanna á fyrri öldum. Frakkar reistu hér sjúkrahús árið 1903 og byggðu kapellu með kirkjugarði. Um eitt hundrað franskir sjómenn hlutu hér hinstu hvíld. Allar götur á Fáskrúðsfirði bera íslensk og frönsk götunöfn. „Franskir dagar“ eru haldnir árlega í lok júlí. Allmargir íbúar Fáskrúðsfjarðar starfa í álverinu á Reyðarfirði.

Fáskrúðsfjörður

Skrúður

Skrúður er eyja utan við Fáskrúðsfjörð. Lundinn hér grefur ekki holur heldur verpir í litla hella og gjótur. Tröllið í Skrúði er kallaður Skrúðsbóndinn af heimamönnum. Tröllið átti það til að stela fé frá bændum og hann tældi prestsdótturina á Hólmum til lags við sig – segir þjóðsagan. Leitað var eftir að biskup Guðmundur góði blessaði Skrúð en hann færðist undan því og bar við draumi. Jarðgöng (6 km) liggja milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og eru þau hin mesta samgöngubót.

Skrúður

Reyðarfjörður

Reyðarfjörður er djúpur og lengsti fjörður (29 km) Austfjarða. Íbúafjöldin fer vaxandi og er nú um 2000. Álver Alcoa stuðlar að aukinni atvinnu og fólksfjölgun. Súrál til verksmiðjunar kemur frá Ástralíu og með rafgreiningu er því breytt í ál. Álverið hóf rekstur 2008 og árleg framleiðsla er 346 þúsund tonn. Fjögur hundruð starfsmenn starfa í álverinu á vöktum. Í seinni heimstyrjöldinni voru um 1300 hermenn hér en íbúafjöldin þá var 321. Fjarlægðin frá Reyðarfirði til Egilsstaða er 33 km um Fagradal. Þegar ekið er frá Reyðarfirði til Eskifjarðar liggur leiðin um Hólmanes en nesið er náttúruverndarsvæði. Hér er fjölskrúðugt fuglalíf svo sem lundi og æðarfugl og fjölbreyttar klettamyndanir. Hólmanes er í um 10 km fjarlægð frá Reyðarfirði. Völvuleiði er við Langhamar. Völvan sagði að enginn gæti rænt Reyðarfjörð meðan bein hennar væru óröskuð. Þegar Tyrkir komu hér 1627 gerði hún svo slæmt veður á móti þeim er þeir sigldu inn fjörðinn að þeir urðu að hörfa og leita annað.

Reyðarfjörður

Eskifjörður

Eskifjörður liggur inn úr Reyðarfirði til norðurs og á leiðinni til Neskaupstaðar er ekið í gegnum Eskifjörð. Í Eskifirði er áhugavert sjóminjasafn í gamalli byggingu frá 1816. Safnið er opið daglega frá 13 til 17 frá júní til ágústloka. Í þorpinu eru öll nútíma þægindi og þjónusta og þar með talin útisundlaug. Um sex kílómetra frá Eskifirði er Helgustaðarnáma sem er silfurbergsnáma og vernduð. Flest silfurberg í erlendum söfnum eru héðan. Stærstu silfurbergskristallar sem fundist hafa komu úr Helgustaðanámu, og voru margir þeirra alveg tærir og gallalausir. Um aldamótin 1900 fékkst úr námunni stærsti kristall sem sögur fara af, um 300 kg að þyngd, en því miður var hann klofinn niður til vinnslu og er ekki til nákvæm lýsing á honum. Silfurberg er mjög stökkt og viðkvæmt í vinnslu og þarf því að grafa eftir því með handverkfærum, helst tréfleygum. Silfurbergið þolir illa högg og koma þá brestir í það. Ef mikið er um bresti missir silfurbergið tærleikann og verður hvítleitt. Slíkt silfurberg var kallað „rosti“. Talið er að miklar skemmdir hafi orðið á silfurberginu í Helgustaðanámu þegar sprengiefni var notað í vinnslunni. Silfurberg er tært afbrigði af kristölluðum kalksteini (kalsít eða kalkspat) og er mjög fágætt utan Íslands enda gjarnan kennt við Ísland á erlendum tungumálum, sbr. Iceland spar á ensku.

Eskifjörður

Oddsskarð

Ökuleiðin frá Eskifirði til Neskaupstaðar er 25 km um Oddsskarð. Vegurinn er í 705 metra hæð þar sem mest er en stutt jarðgöng eru í 632 metra hæð. Jarðgöngin voru opnuð 1977. Þegar þessi vegur var fyrst opnaður 1949 komst Neskaupstaður fyrst í vegasamband. Fram að 1949 voru allir flutningar á sjó. Skíðasvæði Neskaupstaðar er í Oddsskarði. Þar eru margar gönguleiðir.

Oddsskarð

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Hengifoss

Hengifoss er hæsti foss í Norðfirði. Fossinn er í ánni í Seldal um 10 km vestan við kauptúnið. Takið hægri beygju inn í Seldal. Fossinn er í fallegu gljúfri með fjölbreyttum gróðri. Laut er nærri fossinum og ber hún nafnið kærleikslaut. Þessi laut er góð fyrir áningu og Eddu-bita. Tröllkonan sem bjó í hellinum bak við fossinn er þar ekki lengur. Hún tapaði í átökum við Loft á Skorrastað og hvarf þá úr héraðinu. Margar gönguleiðir eru í nágrenninu.

Hengifoss

Nípan

Náttúruverndarsvæðið Nípan hefur verið friðað síðan 1972 og er mjög vinsælt meðal heimamanna. Nípan er rétt austan við Neskaupstað. Gangið með ströndinni að Páskahelli sem er auðveld ganga. Stigi liggur niður í hellinn. Hafið hefur myndað hann í árþúsundir. Þjóðsagan segir okkur frá bónda á Bakka sem fann selkonu í hellinum. Hann tók hana heim með sér og þau giftust og áttu sjö börn. Þegar sjöunda barnið var fætt hvarf hún aftur til sjávar, Hér má sjá holur í berginu eftir tíu til tólf miljón ára gömul tré. Meðfram göngustíg eru ýtarlegar upplýsingar um ýmis áhugaverð fyrirbæri í náttúrunni.

Nípan

Annað áhugavert

Í Hafnarhúsinu á Norðfirði er sjóminjasafn, listasafn og náttúrufræðisafn. Söfnin eru opin daglega frá 13 til 17 frá júní til ágústloka. Akið upp að snjóflóðavörninni. Gönguleið er umhverfis hana og eftir henni að ofan. Frábært útsýni er þaðan yfir fjörðinn. Golf Golfklúbbur Norðfjarðar er nærri flugbrautinni rétt vestan við bæinn. Þetta er níu holu völlur – par 70 (35/35). www.golf.is

Bendum einnig á eftirfarandi áhugavert:

Málverkasafn Tryggva Ólafssonar 
Náttúrugripasafnið í Neskaupstað.
Stangveiði í Norðfjarðará, veiðileyfi seld www.veidiflugan.is
Berjatínsla. Í venjulegu árferði hefur berjatínsla hafist fljótlega eftir verslunarmannahelgi.Berjaspretta er oft mikil í fjallinu upp af kaupstaðnum og eins í Norðfjarðarsveit. Má á báðum stöðum finna aðalbláber, bláber og krækiber.