Umhverfið

Skógar og nágrenni

Skógabæirnir eru austustu bæir Eyjafjalla. Ökuleiðin frá Reykjavík er 155 km. Bæjarnöfnin Skógar segja okkur að sveitin hafi verið vaxin skógi er landnámsmenn settust hér að. Áætlað er að um 25% af landinu hafi verið skógi vaxið á landnámsöld. Nú er um 1% skógi vaxið. Grasbítar voru hér engir en þegar landnámsmenn eyddu skógunum var verndun hins lausa eldfjallajarðvegs rofin og uppblástur tók við. Íslenskur jarðvegur er leirlítill og því afar laus í sér. Nú nær gróðurþekjan aðeins yfir 25% af landinu en var 65% á landnámtímanum að bestu manna yfirsýn. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Þjóðsagan segir frá fjársjóði hans undir Skógarfossi. Margir hafa reynt að ná kistunni upp og í síðustu tilraun brotnaði haldið af og kistan sökk í hylinn á ný. Hringinn má sjá í safninu á Skógum. Landnámabók segir frá deilum Þrasa á Skógum og Loðmundar á Sólheimum litlu austar. Báðir voru þeir galdramenn og veittu Jökulsá yfir lönd hvors annars og þannig varð hinn mikli Sólheimasandur til – segir þjóðsagan. Loks kom að því að karlar þreyttust á þessum leik og sömdu um að veita ánni beint til sjávar. Héraðsskóli fyrir Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellsýslu var stofnaður hér árið 1949 og var hann heimavistarskóli. Skólinn starfar ekki lengur. Húsnæðið er í dag nýtt sem sumarhótel.

Áhugaverðir staðir í nágrenninu

Seljalandsfoss

Rétt eftir að ekið er yfir brúna á Markarfljóti á leiðinni til Skóga er beygja til vinstri inn á veg # 249 sem liggur að Seljalandsfossi og áfram inn í Þórsmörk. Fossinn er 65 m hár og meðal hæstu fossa landsins. (Hæstur er Glymur í Hvalfirði 198 metrar.) Seljalandsfoss fellur fram af fornum sjávarhömrum. Gengt er bak við fossinn og gefur það óvænt útsýni og tækifæri til myndatöku. Það er ekki oft sem fólk getur farið á bak við foss. Erfið og stundum blaut ganga en vel þess virði.

Seljalandsfoss

Paradísarhellir

Skammt austan við bæinn Heimaland er Paradísarhellir. Hann er lítill en hægt er að ganga inn í hann um þröng op. Á 16. öld hafðist útlaginn Hjalti Magnússon þar við samkvæmt þjóðsögum. Hjalti er frægur úr sögu Jóns Trausta um Önnu frá Stóru Borg. Best er að aka að fjárrétt austan við Heimaland og leggja bílnum þar. Ganga síðan að hellinum. Gangan upp er nokkuð erfið svo fara skal gætilega. Kaðall er til stuðnings. Mynd: Björgvin Sveinsson.

Paradísarhellir

Skógafoss

Þessi fagri foss er 60 m hár og er einn af fjölmörgum í ánni Skógá sem á upptök sín á rananum milli jöklanna Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls (Fimmvörðuháls). Þessi foss er sennilega með formfegurstu fossum á landinu og er um 25 metra breiður. Gönguleiðin upp með Skógá er afar vinsæl en leiðin liggur inn í Goðaland og Þórsmörk. Göngutíminn í Þórsmörk er um sjö til níu klukkustundir. Þrepin upp á brúnina er 183. Í Skógá eru á þriðja tug fallegra fossa og einum þeirra svipar mjög til Skógarfossar að stærð og lögun. Fagran regnboga og stundum tvo má sjá í fossúðanum á sólbjörtum degi. Við Skógarfoss verpir fýll og þar má einnig sjá tjalda og spóa. Góð silungsveiði er í ánni neðan fossins.

Skógafoss Skógafoss

Skógasafn

Er opið daglega í júní til ágústloka frá kl 09 til-19. Í maí og september er opið frá 10 til 17 en í öðrum mánuðum eftir samkomulagi. Skógasafn var stofnað 1949 og safnið er meðal þeirra bestu á landinu. Safnvörðurinn, Þórður Tómasson, er upphafsmaður safnsins og hefur hann staðið að söfnun muna um sex áratuga skeið. Hann starfar enn að miklum krafti. Í útisafninu er sýndur m.a. gamall bær, endurbyggð kirkja, sýslumannshús og skólahús. Skrautmunir í kirkjunni eru ævafornir munir úr eldri kirkjum. Fyrir nokkrum árum var opnað nýtt sýningarhús í safninu - Samgöngusafn. Í húsinu er sýnd þróun samgangna og tækni á landinu á 19. og 20. öld. Þar er einnig veitinga- og minjagripasala.

Skógasafn

Jöklar

Eyjafjallajökull er 1666 metra hátt og jökullinn um 80 km2 að flatarmáli. Hér á landi eru eldkeilur sjaldgæfar eða aðeins þrjár talsins, Snæfellsjökull, Öræfajökull og Eyjafjallajökull. Eldfjallið Eyjafjallajökull er virk megineldstöð með kvikuhólfi og öskju. Askjan er lítil (2.5 km2) og full af ís. Suðurhlíðar fjallsins ná niður að fornum sjávarhömrum við þjóðveginn. Fjallið var frá fyrstu tíð vel þekkt kennileiti við siglingar til landsins og dregur nafn sitt af Vestmannaeyjum. Jarðskjálftar eru tíðir þar sem kvika er að safnast saman í kvikhólfið undir eldfjallinu. Jörð er að lyftast á þessu svæði sem ber vott um að kvika sé á hreyfingu upp og að gos sé í aðsigi. Fjallið hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma. Fyrra gosið var 1612 en hið síðara árin 1821 til 1823. Afleiðingar þess goss voru hörmulegar vegna mikils jökulhlaups. Svæðið milli Eyjafjalla og  Fljótshlíðar var sem haf á að líta. Eldfjall er talið virkt ef það hefur gosið á s.l. tíuþúsund árum. Tveir skriðjöklar renna úr Eyjafjallajökli til norðurs í átt að Þórsmörk þ.e. Steinholtsjökull og Gígjökull. Hámundur heitir hæsti tindur Eyjafjallajökuls. Kletturinn Goðasteinn er á syðri barmi gígsins. Fimmvörðuháls (1100 m hár) er fjallshryggur milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Gos hófst í Fimmvörðuhálsi árla morguns 21. Mars 2010. Gossprungan er frá suðvestri til norðausturs. Á sprungunni eru nú 12 til 15 gosstrókar og hraun rennur til austurs og vesturs. Svæðið norðan við Fimmvörðuháls heitir Goðaland. “Mýrdalssvæðið var undir sjó fyrir 2 – 3 miljón árum og sennilegt er að Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull hafi orðið til fyrir um 600 þúsund til 700 þúsund árum á svipaðan hátt og Vestmannaeyjar eða sem þyrping smárra eyja í miðju hafi.” (Iceland –Thor Thordarson & Armann Hoskuldsson). Mýrdalsjökull er 695 km2 að stærð og fjórði stærsti jökull landsins. Vatnajökull er stærstur 8300 ferkílómetrar. Jöklar þekja um 12 % af landinu. Allmargir skriðjöklar renna frá Mýrdalsjökli. Stærstir þeirra eru Sólheimajökull í suðri og Kötlujökull á austri. Kötlujökull heitir eftir eldfjallinu Kötlu sem er undir Mýrdaljökli. Gígurinn í Kötlu er af sömu stærð og Þingvallavatn eða nær 84 km2. Tenging virðist vera milli eldfjallanna í Eyjafjallajökli og Mýdalsjökli. Fjarlægð milli gíganna er stutt og sprungustefnan er sú sama.

Jöklar Jöklar

Skógasandur og Sólheimasandur

Báðir sandarnir eru myndaðir í miklum jökulhlaupum í gegnum aldirnar. Stærsta hlaupið var á sjöundu öld í Kötlugosi. Íslenska orðið jökulhlaup er notað af jarðfræðingum um allan heim um bráðnun og framstreymi vatns úr jökli við eldgos. Þjóðsögunni um Þrasa og Loðmund ber að taka með varúð. Mikil sandgræðsla hefur verið unnin þarna á síðustu árum.

Skógasandur og Sólheimasandur

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Ökuferð til Sólheimajökuls

Malavegur # 221 er um 4 km og beygt er inn á hann rétt austan við Skóga eftir að hafa farið yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Þessi á er einnig kölluð Fúlilækur vegna brennisteinsfnyks sem oft leggur frá ánni. Þetta er sú fræga á sem Þrasi og Loðmundur veittu yfir lönd hvors annars samkvæmt þjóðsögunni. Sólheimajökull er skriðjökull út frá Mýrdalsjökli. Jökullinn dregst saman og hörfar. Hann er nú tæpum 400 metrum styttri en hann var fyrir tíu árum. Jökullinn er gráleitur með dökkum sandblettum og drýlum. Áhugaverðar lautir eru í nágrenni jökulsins og kallast þær Sængureyjar. Þær eru tilvaldar í lautarferð með Eddu-bita. Varúð – Þegar gengið er nálægt skriðjökli ber að varast að stíga á vota fleti. Þetta getur verið blautur leir sem þú getur sokkið ofan í. Erfið og óþægileg reynsla.

Ökuferð til Sólheimajökuls

Raufarfell – Seljavellir

Akið um 5 km til vesturs að Raufarfellsvegi # 242. Akið síðan á leiðarenda með hægri beygju. Við enda vegarins eru Seljavellir en þar er sundlaug sem ungt fólk í sveitinni byggði árið 1933 til þess að nýta heita vatnið sem streymir úr berginu. Þetta er áhugaverður staður fyrir ljósmyndara og sem nestisstaður. Býlið Raufarfell er þekkt fyrir hrossarækt. Hrafn heimski settist hér að samkvæmt Landnámabók. Hann var forfaðir Sæmundar fróða sem fengið hefur á sig þjóðsagnablæ. Sæmundur sótti nám í svartaskóla sem Kölski stjórnaði eins og kunnugt er. Næsti bær er Rauðafell. Allmargar þjóðsögur um álfa og tröll gerast á þessum slóðum t.d. Una, álfkona á Rauðafelli, Gilitrutt og sagan um sjódrauginn við Hvammsnúp svo nokkur dæmi séu tekin.

Raufarfell – Seljavellir

Fell og Keldudalur

Um 12 km austan við Skóga er malavegur til vinstri rétt áður en komið er að Pétursey. Þessi vegur liggur inn í Keldudal. Akið að eyðibýlinu Felli. Eldklerkurinn séra Jón Steingrímsson (1728-1791) bjó hér í eina tíð. Fólkið trúði því að Eldmessan svokallaða hafi stöðvað hraunflóðið sem ógnaði kirkjunni að Klaustri. Þetta er ákjósanlegt svæði til lautarferðar. Stansið einnig við völvuleiðið. Völuspá er þekkt úr Eddukvæðunum. Ljóðið segir frá upphafi heimsins og endalokum. Völvan er að ávarpa Óðinn. Þetta kvæði er einn af höfuðþáttum norrænnar goðafræði. Kvæðið hefur verið þýtt á fjölda tungumála. Enskar þýðingar eru t.d. eftir enska skáldið W.H. Auden og prófessor Lee Hollander í University of Texas. Lee Hollander þýddi einnig Heimskringlu Snorra Sturlusonar á ensku. Starfsfólk á Skógum gefur ykkur frekari upplýsingar.

Pétursey

Pétursey er stakt móbergsfjall (275 m) við austurenda Sólheimasands. Eyjan há er eldra nafn fjallsins. Ummerki sýna að þetta var eyja til forna. Sturlunga segir okkur að þarna hafi verið virki þar sem 200 manns bjuggust til varnar. Nokkrir bæir eru í nágrenninu og einn þeirra heitir Pétursey. Sunnan við Pétursey er gígtappi úr blágrýti sem móbergið hefur eyðst af. Hólinn heitir Eyjarhóll. Í hlíðum Péturseyjar má sjá mikilfenglega paldra. Paldrar eru stallar sem myndast við hægt jarðsig. Margar þjóðsögur fjalla um álfa í nágrenni Péturseyjar. Í Pétursey er hellir þar sem bændur geymdu báta sína og veiðarfæri. Áttæringurinn Pétursey, sem nú er á safninu í Skógum, var eitt sinn gerður út héðan bæði til fiskiróðra og kaupstaðaferða til Vestmannaeyja.

Pétursey