Umhverfið

Umhverfið

Stórutjarnir eru í Ljósavatnsskarði en skarðið er í raun breiður dalur opinn í báða enda milli Fnjóskadals í vestri og Bárðardals í austri. Há fjöll eru á báðar hliðar og jökulruðningar frá síðustu ísöld liggja þvert yfir skarðið. Ljósavatn er í austurendanum. Himbrimar sjást oft á þessu vatni. Himbriminn og lómurinn eru fuglar frá Norður-Ameríku sem verpa hér. Hér stóð bær Þorgeirs Þorkelssonar lögsögumanns og Ljósvetningagoða en hann úrskurðaði árið 1000 að Kristin trú skyldi ríkja hér á landi. „Ef við slítum í sundur lögin þá slítum við líka friðinn,“ voru orð hans. Heimavistarskólinn að Stóru-Tjörnum er nýttur sem hótel á sumrin. Fjarlægðin frá Egilsstöðum er 273 km og 30 km eru til Akureyrar ef farið er í gegnum Vaðlaheiðargöng.

Áhugaverðir Staðir

Goðafoss

Á leiðinni að Goðafossi skuluð þið stansa við Þorgeirskirkju og líta þar inn. Þorgeirskirkja var vígð árið 2000 til að minnast 1000 ára kristnitöku á Íslandi. Hún var nefnd Þorgeirskirkja í minningu Þorgeirs Þorkelssonar, Ljósvetningagoða. Þorgeir var sáttasemjari í deilu heiðinna manna og kristna á Alþingi árið 1000. Hann þáði 11 merkur silfurs fyrir að úrskurða í deilunni og báðir aðilar sögðust sættast á úrskurð hans. Hann lýsti því yfir, eftir að hafa legið undir feldi í einn dag og eina nótt, að landið skyldi vera kristið. Eftir heimkomuna varpaði hann goðalíkneskjum sínum í fossinn og síðan heitir hann Goðafoss. Kirkjan er þannig hönnuð að í stað hefðbundinnar altaristöflu er stór gluggi á kórgaflinum þar sem náttúran blasir við í sínum margbreytilegu myndum. Kirkjan er opin alla daga frá 10 til 17 frá 15. júní til 15. ágúst. Bændastund er í lok hvers dags. Hrafnkell Thorlacius, arkitekt í Reykjavík teiknaði kirkjuna

Goðafoss er 6 km frá Stórutjörnum. Fossinn er í Skjálfandafljóti og fékk þetta nafn þegar Þorgeir Ljósvetningagoði varpaði heiðnum goðalíkneskjum í fossinn eftir að hafa verið á Alþingi og tekið Kristna trú. Gangið niður með ánni í átt að Fosshóli. Skoðið gatklettinn og hellinn sem notaður er til sólbaða á björtum dögum. Upptök Skjálfandafljóts er við rætur Vatnajökuls í suðri. Fljótið er 178 km langt og rennur eftir jafnlöngu hrauni í Bárðardal og síðan út í Skjálfandaflóa. Þegar þið komið að Mývatni (40 km frá Stórutjörnum) akið þið hjá Skútustöðum. Þar eru tvö hótel sitt hvoru megin við veginn. Stansið við Gíghótel og gangið inn á meðal gervigígana. Gangan endar við Sel-Hótel Mývatn.Gervigígar myndast þegar heitt hraun rennur yfir votlendi. Vatnið undir hrauninu yfirsýður og gufuþrýstingurinn þeytir upp hrauninu, sem tætist sundur í gjall. Kringlóttir gígar myndast en eru ekki gosgígar því engin gosrás er undir þeim. Oftast eru þessir gígar saman í þyrpingu sbr. Rauðhólar í nágrenni Reykjavíkur. Svona gígar finnast á fjórum stöðum á landinu og á plánetunni Mars en hvergi annars staðar svo vitað sé. Stærstu gervigígarnir eru eyjar í Mývatni. Þessir gígar mynduðust þegar Laxárhraun rann fyrir 2000 árum. Stærsta þyrping gervigíga eru í Landbroti. Rauðhólar mynduðust þegar Leitahraun rann yfir votlendi fyrir 4700 árum. Hér er um einstakt náttúrufyrirbæri að ræða.

Goðafoss

Dimmuborgir

Haldið nú ferðinni áfram og akið um 5 km til austurs með hægri beygju inn að Dimmuborgum. Dimmuborgir eru leifar af hringlaga hrauntjörn sem varð til er hraun rann úr Lúdentborgum og út í Mývatn. Yfirborð hraunsins var að storkna þegar heitt hraunið undir kólnandi skorpunni fann útrás og rann burt. Útrásin er til hægri við veginn að Dimmuborgum. Skorpan féll niður og það er hún sem við göngum nú á. Gufuopin sem í upphafi hleyptu gufunni út standa nú sem drangar í hraunbreiðunni. Víða má sjá hvernig skorpan skrapaði lórétt för í drangana er hún féll niður. „Kirkjan“ er hraunhellir sem gaman er að skoða. Margar og ólíkar hraunmyndanir birtast á hinum ýmsu gönguleiðum um Dimmuborgir. Haldið ykkur á merktum stígum. Það er auðvelt að villast. Stutt leið er merkt með bláu. Hinar lengri eru merktar með rauðu, gulu og hvítu. Margir skemmtilegir staðir eru í Dimmuborgum þar sem hægt er að snæða Eddu-bita. Náið ykkur í kort í þjónustuhúsinu áður en gangan hefst. Dimmuborgir urðu til fyrir 2000 árum í miklu eldgosi. Þetta er afar vinsæll ferðamannastaður og ætlað er að um þúsund manns komi hér daglega á sumrin.

Dimmuborgir

Mývatn

Mývatn er 40 km frá Stórutjörnum. Fegurð Mývatns hefur mótast af eldgosum og hraunrennslum í þúsundir ára. Vatnið er 36.5 km2 og er þekkt fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Sautján tegundir af öndum eru á vatninu. Allar tegundir anda á Íslandi finnast á Mývatni og á Laxá. Meðal þeirra eru tvær tegundir frá Norður Ameríku sem verpa hér á landi en hvergi annars staðar í Evrópu en það eru húsöndin og straumöndin. Vatnið er grunnt og það gerir öndunum auðvelt að kafa eftir fæðu. Nafn vatnsins er frá mýflugunni. Tvær tegundir hennar eru hér og flugan er mikilvæg fæða fyrir fuglana. Kúlulaga grænþörungur (Vatnamýll/Vatnaskúfur) lifir á vatnsbotninum. Samskonar þörungar vaxa í vatninu Akan á eyjunni Hokkaido í Japan. Vatnamýllinn heitir Marimo á japönsku. Silungur er í vatninu og bændur veiða hann í net á sumrin en í gegnum ís á veturna. Í bakaleiðinni til Stórutjarna mælum við með stoppi í Gamalbæ í Reykjahlíð. Þar fæst hverabakað rúgbrauð með reyktum Mývatnssilungi. Frábær hressing með kaffi. Takið efir stóru hraunhólunum í hrauninu norðan við vatnið. Alþjóðlegt orð yfir þetta fyrirbæri er latneska orðið„tumulus“ fleirtala „tumuli“. Þegar hraun rennur kólnar yfirborðið en heita hraunið sem streymir undir ýtir yfirborðinu upp í hauga af þessari gerð. Þegar hólarnir kólna svo endanlega springa þeir. Þetta hraun rann árið 1724 og æðri plöntur hafa enn ekki skotið rótum. Grámosinn er smátt og smátt að myndar jarðveg. Það tekur um þúsund ár fyrir jarðveg að myndast í hrauni. Þessar endur eru algengastar á Mývatni: Straumönd, húsönd, duggönd,skúfönd, toppönd og rauðhöfðaönd. Flórgoðinn er skrautleg önd sem er næstum horfin frá Mývatni. Þó má sjá hann einstaka sinnum í skurðum við vatnið.

Mývatn

Jarðböðin við Mývatn

Talið er að Jarðbaðshólarnir hafi myndast í gosin 1724. Svæðið er þekkt úr fornum ritum. Gísli Oddson biskup í Skálholti skrifaði um gufuna hér 1638. Guðmundur biskup góði taldi hana mjög heilsusamlega. Jarðböðin við Mývatn hófu rekstur árið 2004. Vatnið sem tekið er á 2500 metra dýpi er ríkt af steinefnum, kísil og hitaörveirum sem hafa góð áhrif á húðina. Húskynni og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Baðlónið er 5000 m2 og hitinn er 30-41°C. Njótið!

Jarðböðin við Mývatn

Námafjall

Námafjall er háhitasvæði austan við Mývatn og hitinn hér er um 200°C á 1000 metra dýpi. Þetta svæði er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Svæðið er á sprungubelti sem liggur í gegnum Ísland frá suðvestri til norðausturs (Atlantshafshryggurinn). Hér eru bæði leirhverir og gufuhverir en engir vatnshverir. Gangið aldrei nær leirhver en þar sem ystu sletturnar enda. Fyrir alla muni gangið aldrei utan merktra svæða. Jarðskorpan er afar þunn og undir gæti leynst sjóðandi leir. Því miður hafa orðið mörg slys hér vegna þess að fólk hefur ekki farið eftir leiðbeiningum. Sjóðandi leir heldur áfram að brenna hörundið þar til hann er skolaður af með köldu vatni. Hér er bara ekkert kalt vatn. Brennisteinn var unnin hér á árum áður en hann var notaður til púðurgerðar í Evrópu og var útflutningsvara.

Námafjall

Krafla

Eldfjallið Krafla er á sömu sprungurein og Námafjall og Jarðböðin. Jarðvarmavirkjunin Krafla heitir eftir samnefndu eldfjalli í nágrenninu og er vel þess virði að skoða. Þar er sýnd kvikmynd um eldsumbrotin frá 1975 til 1984. Gosið var af og á í tíu ár alls 21 umbrot. Plötuskilin milli Ameríku plötunnar og Evrópu-Asíu plötunnar rifnuðu um níu metra. Þeir sýna einnig hvernig svona jarðvarmavirkjun verður til. Annar áhugaverður staður er gígurinn „Víti“ í suðvestur hlíð eldfjallsins Kröflu. Gígurinn er um 300 metrar í þvermáli. Hann varð til í mikilli sprengingu árið 1724 sem var upphaf Mývatnselda. Gosið stóð í fimm ár og er lengsta stöðuga gos í sögu landsins. Vatnið í Víti sauð í rúmlega eina öld eftir gosið. Einnig er mjög áhugavert að fara í göngu inn í „nýja“- hraunið sem rann á árunum 1975 til 1984. Þar er enn víða heitt eftir öll þessi ár. Létt, þægileg og mjög áhugaverð ganga.

Krafla

Húsavík

Húsavík er um 50 km frá Stórutjörnum. Íbúar er um 2500. Nafnið Húsavík er sennilega elsta örnefni á Íslandi. Garðar Svavarsson sigldi umhverfis landið og sá að það var eyja. Hann byggði sér hús í vík við Skjálfandaflóa til vetursetu og nefndi víkina Húsavík. Húsavík er nú miðstöð hvalaskoðunar á landinu. Í Hvalasafninu er hægt að kynnast hvölum, hvalveiðum og hvalaskoðun. Fiskveiðar og fiskverkun er aðal atvinnuvegurinn hér ásamt síaukinni ferðaþjónustu. Kirkjan er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni og var reist árið 1907. Þá rúmaði hún alla íbúa í þorpinu. Kirkjan hefur verið tákn Húsavíkur í áraraðir. Akið upp á Húsavíkurfjall og njótið miðnætursólarinnar.

Húsavík

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Hverfjall

Hverfjall er skammt frá Dimmuborgum. Hverfjall er risastór gígur um 140 metra djúpur og rúmlega 1000 metrar í þvermál. Þetta er afar fallega formaður sprengigígur og er sennilega sá stærsti á jörðinni. Hann varð til í mikilli sprengingu fyrir um 2500 árum. Skemmtileg ganga er eftir gígbarminum. Leiðin niður tekur vel í hnén.

Hverfjall

Aldeyjarfoss

Margir halda því fram að Aldeyjarfoss sé fegursti foss landsins. Afar fallegt stuðlaberg og margir skessukatlar leika hér stórt hlutverk. Aldeyjarfoss er í Bárðardal sem er lengsti dalur landsins í ábúð. Það eru um 35 km milli innsta og ysta bæjarins. Til að aka að Aldeyjarfossi er best að aka leið 842 um 34 km til suðurs meðfram Skjálfandafljóti að vestanverðu. Skjálfandafljót er 178 km langt. Beygt er inn á leið 842 skömmu fyrir Goðafoss en hann er í þessari sömu á. Rétt eftir að ekið er framhjá bænum Mýri kemur þú að bílastæði á vinstri hönd. Þaðan er stutt ganga að fossinum. Orðið „Aldey“ þýðir öldueyja. Krafturinn í fossinum er svo mikill að vatnið hrúgast upp í miðjum hylnum og myndar eyju. Þetta svæði er vinsælt til lautaferða. Takið Eddu-bita með.

Aldeyjarfoss

Ásbyrgi

Ásbyrgi er 66 km frá Húsavík til austurs um Tjörnes. Ásbyrgi var grafið út í miklum hamfarahlaupum fyrir um 2000 til 4500 árum. Gífurlegt vatnsmagn jökulhlaupsins fann sér farveg til norðurs og gróf út þetta byrgi en skildi eftir klettaeyju í miðjunni. Eyjan skiptir Ásbyrgi í tvennt. Norræn goðafræði segir að Óðinn hafi verið á yfirreið á hesti sínum Sleipni sem hafði átta fætur. Óðinn gleymdi sér um stund og fór of lágt en þá steig Sleipnir óvart á jörðina og myndaði hóffarið. Gangið niður að Botntjörn og skoðið gróður og fuglalíf. Rauðhöfðaöndin elur unga sína á tjörninni og fýllinn verpir í björgunum. Skógarþrestir og hrossagaukar láta einnig heyra í sér í skóginum og óðinshanar synda í hringi á Botntjörn. Gróðurfar er mikið og hér vaxa birki og reynitré í góðu skjóli. Lerki, greni og fura eru hér í þyrpingum. Borð og bekkir eru á grasflötinni við stöð landvarðar. Þetta er tilvalinn staður til að njóta nestis.

Ásbyrgi Ásbyrgi

Kvöldganga

Spyrjið starfsfólk gestamóttöku um gönguleiðir að leynivatninu Níphólstjörn sem er um 30 mínútna ganga upp fjallið og að Ljósavatni. Borð og bekkir eru við Ljósavatn.