Þjóðsögur

Þjóðsögur á Suðurlandi

Sagan af Kötlu í Kötlugjá

"Það bar við eitthvört sinn á Þykkvabæjarklaustri eftir að það var orðið múnkasetur að ábóti sem þar bjó hélt þar matselju eina er Katla hét. Hún var forn í skapi, og átti hún brók þá sem hafði þá náttúru að hvör sem í hana fór þreyttist aldrei á hlaupum. Brúkaði Katla brók þessa í viðlögum. Stóð mörgum ótti af fjölkynngi hennar og skaplyndi og jafnvel ábóta sjálfum. Þar á staðnum var sauðamaður er Barði hét. Mátti hann oft líða harðar átölur af Kötlu ef nokkuð vantaði af fénu þegar hann smalaði. Eitt sinn um haust fór ábóti í veislu og matselja með honum, og skyldi Barði hafa rekið heim allt féð er þau kæmu heim. Fann nú ei smalamaður féð sem skyldi. Tekur hann því það ráð að hann fer í brók Kötlu , hleypur síðan sem af tekur og finnur allt féð. Þegar Katla kemur heim verður hún brátt þess vís að Barði hefur tekið brók hennar. Tekur hún því Barða leynilega og kæfir hann í sýrukeri því er að fornum sið stóð í karldyrum og lætur hann þar liggja. Vissi enginn hvað af honum varð, en eftir sem leið á veturinn og sýran fór að þrotna í kerinu heyrði fólk þessi orð til hennar: "Senn bryddir á Barða". En þá hún gat nærri að vonska hennar mundi upp komast og gjöld þau er við lágu. Tekur hún brók sína, hleypur út úr klaustrinu og stefnir norðvestur til jökulsins og steypir sér þar ofan í að menn héldu, því hún sást hvörgi framar. Brá þá svo við að rétt þar eftir kom hlaup úr jöklinum er helst stefndi á klaustrið og Álftaverið. Komst þá sá trúnaður á að fjölkynngi hennar hefði valdið þessu. Var gjáin þaðan í frá nefnd Kötlugjá og plássið, sem þetta hlaup helst foreyddi, Kötlusandur"

Sagan af Kötlu í Kötlugjá

Kirkjusmiðurinn á Reyni

Einu sinni var bóndi á Reyni sem ætlaði að byggja kirkju. Erfiðlega gekk að afla timburs til verksins og það tafðist fram að heyskap. Bóndinn hafði mikla áhyggjur af þessu en gat lítið að gert. Dag nokkurn mætti hann manni á gangi í túninu, Hann bauðst til að byggja kirkjuna. Bóndinn spurði hver launin ættu að vera. Maðurinn sagði að ef bóndinn gæti getið hvert nafn hans væri þá væri það næg borgun en ef ekki, þá fengi hann yngsta son bónda. Þetta samþykkti bóndi og maðurinn hóf smíðina. Verkið sóttist vel og bóndi fór að hafa mikla áhyggjur af syni sínum. Svo var það dag einn er bóndi gekk með klettunum ofan við bæinn að hann heyrði söng. Hann lagði við hlustirnar og hann heyrði konu syngja: „Senn kemur hann Finnur, faðir þinn frá Reyn, með þinn litla leiksvein.“ Bóndinn tók nú gleði sína aftur og gekk til kirkju. Þar var smiðurinn að negla síðustu fjölina við altarið. „Þetta gengur nú aldeilis vel hjá þér Finnur,“ sagði bóndi. Maðurinn sleppti spýtunni og hvarf. Hann hefur ekki sést í sveitinni síðan.

Kirkjusmiðurinn á Reyni

Konan og selshamurinn

Þetta er saga um mann í Vík sem eitt sinn gekk með ströndinni og heyrði söng í helli. Hann sá marga selshami utan við hellinn og tók einn þeirra með sér heim. Hann læsti haminn ofan í kistu. Síðdegis gekk hann hjá hellinum og sá þá nakta konu grátandi. Hún átti haminn sem maðurinn hafi numið brott. Maðurinn lét stúlkuna fá föt og fór með hana heim. Seinna giftust þau og áttu sjö börn. Nú bar svo við að eitt sinn er maðurinn réri til sjávar að hann gleymdi lyklunum af kistlinum undir koddanum. Konan fann lykilinn og lauk kistlinum upp. Þar fann hún haminn sinn. Hún brá honum um sig og steypti sér í hafið. Í hvert sinn sem maðurinn réri til fiskjar eftir þetta sást selur í nágrenni bátsins og maðurinn aflaði ávallt vel. Þegar börnin léku sér á ströndinni var selur í sjónum fyrir utan og ýmislegt skemmtilegt flaut að landi. Við mælum með Þjóðsögum Einars Ól. Sveinssonar eða Jóns Árnasonar.

Konan og selshamurinn