Umhverfið

Vík í Mýrdal og nágrenni

Vík í Mýrdal er lítið en snoturt þorp austan við Reynisfjall (íbúar tæplega 300). Fjarlægðin frá Reykjavík til Víkur er 186 km en frá Skógum 33 km. Íbúar í Vík sinna þjónustustörfum fyrir landbúnaðinn í héraðinu og sífellt aukinni ferðaþjónustu. Léttur iðnaður er einnig stundaður og í Vík er ein elsta prjónastofa landsins, Víkurprjón. Mikill fjöldi breskra og bandarískra hermanna var hér á árum seinni heimsstyrjaldar og ráku þeir m.a. Lóranstöð á Reynisfjalli. Reynisfjall er vinsælt meðal fuglaáhugamanna því þar má skoða margar tegundir eins og t.d. kríu, svartfugl, lunda, fýl og ritu. Lunda og ýmsa aðra sjófugla er einnig hægt að skoða í návígi í Dyrhólaey sem er nokkrum kílómetrum vestar. Vík stendur undirMýrdalsjökli. Jökullinn þekur Kötlu sem er virkt eldfjall. Eldfjall er virkt ef það hefur gosið s.l. tíuþúsund ár. Katla hefur gosið á 40 til 80 ára fresti í aldaraðir eða meira en 20 sinnum frá landnámi. Síðasta gos var árið 1918 og stóð í 24 daga (12. október. til 4. nóvember). Íbúar í Vík æfa reglulega flóttaleiðir frá gosi úr eldfjallinu. Mikið kríuvarp er sunnan við Víkurprjón. Minnismerki um þýska sjómenn er ofan við fjöruna í Vík skammt frá Brydebúð en þar er upplýsingamiðstöð og sýningar margskonar.

Áhugaverðir staðir

Mýrdalsjökull

Mýrdalsjökull gnæfir ofan við þorpið í Vík og er um 595 km2. Hann er fjórði stærsti jökull landsins. Frá Mýrdalsjökli renna margir skriðjöklar. Stærstir eru Sólheimajökull í suðri og Kötlujökull í austri. Kötlujökull er nefndur eftir eldfjallinu Kötlu sem er undir Mýrdalsjökli. Eldfjallið er annað stærsta eldfjall landsins á eftir Hofsjökli og hefur gosið ofsafengnustu gosum í sögu landsins. Ísfyllt askja Kötlu er um 84 km2 eða á stærð við Þingvallavatn. Katla er annað virkasta eldfjall landsins. Svo virðist sem tenging sé milli eldfjallanna Eyjafjallajökuls og Kötlu. Fjarlægðin er stutt milli gíga og sprungustefnan er sú sama. Jöklar þekja um 12% af landinu. Vatnajökull er þeirra stærstur (8300 km2), þá Langjökull (950 km2), Hofsjökull þriðji (925 km2) sem jafnframt er stærsta eldfjall á Íslandi, fjórði er svo Mýrdalsjökull (695 km2).

Mýrdalsjökull

Katla

Eldfjallið Katla er undir Mýrdalsjökli með stóra (84 km2) ísfyllta öskju. Þessi askja er hin fræga Kötlugjá sem nefnd er eftir ráðkonunni á klaustrinu í Þykkvabæ. Fjallið gýs á 40 til 80 ára fresti. Þegar Katla gýs gerir hún það af ógnar afli, bræðir af sér jökulísinn og sendir kröftug jökulhlaup með stórum ísjökum niður á sandinn og til sjávar. Vatnsmagnið er svipað og í Amazon fljótinu í mestu vatnavöxtum þess. Ætlað er að Katla hafi gosið oftar en 20 sinnum frá landnámi. Árið 894 lögðust sex bæir í eyði og árið 1262 eyddust mörg býli. Gosið 1262 er kallað Sturluhlaup vegna þess að allir í byggðinni drukknuðu nema Sturla og eitt lítið barn. Sturla náði taki á barninu í vöggu, klifraði upp á ísjaka og þau flutu til hafs. Jakann rak síðar að landi aftur með Sturlu og barnið. Báðum var bjargað. Síðasta gos í Kötlu hófst laugardaginn 12. október 1918 með miklu jökulhlaupi. Fjárhirðar á sandinum björguðust fyrir snarræði og áttu hestum sínum fjör að launa en kindurnar fórust allar. Þær voru sífellt að stansa og horfa á æðandi flóðbylgjuna sem nálgaðist þær óðfluga og greip þær svo að lokum. Sumir jakarnir á hlaupinu voru 70 metra háir. Mýrdalsjökuls- og Eldgjáreldarnir árin 934-40 er meðal mestu hraungosa jarðarinnar á sögulegum tíma.

Katla

Reynisfjall

Reynisfjall vestan Víkur er 340 metrar. Í suðurhlíðinni að vestanverðu er fallegt stuðlaberg og tveir hellar. Hvönn vex víða í bröttum hlíðum og klettum. Vegurinn upp fjallið er einn af þeim bröttustu á landinu. Gangið hann en akið ekki. Mikill fjöldi fýla verpir í fjallinu. Varúð! Haldið ykkur fjarri klettum til að forðast grjóthrun.Reynisdrangar heita 66 metra háir steindrangar sem eru hluti af Reynisfjalli sem sjórinn hefur í aldanna rás verið að brjóta niður. Þjóðsagan segir þó að drangarnir hafi orðið til þegar tvö tröll úr Reynisfjalli vildu ná þrímöstruðu skipi til sín, skipverjar veittu tröllunum svo mikla mótspyrnu að þau döguðu upp og urðu að steini og skipið með um leið og sólin skein á þau. Árið 1991 var ströndin við Vík útnefnd ein af tíu fegurstu eyjaströndum í heiminum og eiga þar drangarnir stóran þátt í. Reynishverfi er héraðið vestan Reynisfjalls.

Vegurinn suður með fjallinu liggur að syðsta bæ landsins sem heitir Garðar. Í nágrenni Garða var bærinn Hellur en þar bjó séra Jón Steingrímsson (eldpresturinn) í tvo vetur. Hann bjó með bróður sínum í manngerðum helli í fjallshlíðinni og hellirinn er þar enn. Í suðurenda fjallsins er Hálsanefshellir og fagurt stuðlaberg. Gætið ykkar á öldunum. Útsogið er sterkt og þarna hafa því miður orðið mörg slys.

Reynisfjall

Reynir

Reynir er bær í Reynishverfi og er hans getið í Landnámu. Kirkja var á Reyni í margar aldir en hún var flutt til Víkur árið 1932. Dr. Sveinn Pálsson (1762-1840) sem var einn fremsti vísindamaður landsins á sínum tíma og fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn hvílir í gamla kirkjugarðinum á Reyni. Hér er sögusvið þjóðsögunnar um kirkjusmiðinn á Reyni Mýrdalssandur Þessi stóri 700 km2 sandfláki austan við Vík er einn af mörgum söndum á suðurströnd landsins. Syðsti hluti sandsins er Kötlutangi sem varð til í Kötlugosinu 1918. Sandurinn er myndaður af miklum fjölda jökulhlaupa frá eldfjallinu Kötlu í aldaraðir. Gamlar frásagnir segja frá skógivöxnum svæðum suður og austur af Hjörleifshöfða þar sem áður var talsverð byggð í skógi og graslendi. Örnefni eins og Dynskógar og Laufskáli bera vitni um þetta. Álftaver eru síðustu leifar blómlegrar byggðar.

Reynir

Áhugaverðir staðir utan alfaraleiða

Dyrhólaey

Dyrhólaey er 120 metra hár móbergsstapi með þverhníptu bergi að sunnanverðu en aflíðandi brekkum til norðurs. Það er gatkletturinn í Tóinni að sunnan sem gefur stapanum nafn. Bátar geta siglt þar í gegn þegar sléttur er sjór. Útsýni frá Dyrhólaey til lands er stórfenglegt á björtum degi. Dyrhólaey var mynduð í neðansjávargosi á hlýskeiði síðustu ísaldar líkt og Surtsey 1963. Surtsey má sjá frá Dyrhólaey í góðu skyggni. Lónið að austan við eyjuna heitir Dyrhólaós. Útgerð var mikil héðan á átjándu öld og fram á þá tuttugustu. Sandfjaran vestan við eyna heitir Dyrhólahöfn. Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í Dyrhólaey og í dröngunum. Þeir eru þaktir sjófugli. Farið var til fugla og egg sótt þangað í áraraðir. Þetta voru mikil búdrýgindi. Fýll og lundi eru áberandi. Talsvert er um æðarvarp. Athugið að öll umferð er bönnuð um varptímann. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978

Dyrhólaey

Kerlingardalur og Þakgil

Akið um 5 km austur fyrir Vík að býlinu Höfðabrekku. Beygið til vinstri inn á veg # 214 að Kerlingadal (sjá kort). Bænum Höfðabrekku var svipt burt í Kötlugosinu 1660. Þá var byggður nýr bær ofar í hlíðinni. Hann var ekki færður niður aftur fyrr en 1964. Best þekkti draugur í þessari sveit er Höfðabrekku-Jóka. Hún er skaðræðis flagð og um hana eru margar sögur. Um Kerlingadal lá gamli þjóðvegurinn. Frá honum hefur verið lagður vegur upp á heiðina þar sem Þakgil blasir við með mörgum hellum. Sumir hellanna hafa verið útbúnir fyrir grill- og nestisferðir. Takið Eddu-bita með. Þetta er myndrænt og vinsælt útivistarsvæði.

Kerlingardalur og Þakgil Kerlingardalur og Þakgil

Hafurssey

Akið austur fyrir Vík um 10 km og beygið til vinstri inn á afleggjara til Hafurseyjar. Hafursey er 582 m hátt móbergsfjall. Hér er fjölskrúðugt fuglalíf. Landsvæðið var eitt sinn skógi vaxið en nú er hér aðeins lágvaxinn gróður. Bændur í Hjörleifshöfða höfðu kindur sínar hér á beit allt árið. Þegar Katla gaus 1755 voru sex menn hér við skógarhögg og hirðingu fjár. Þeir dvöldu í helli í sex daga meðan á mestu hamförunum stóð þar til þeim var bjargað. Einn þeirra hjó fangamörk þeirra á veggi hellisins og þau má les enn í dag. Slysavarnaskýli er austan við Hafursey. Mynd: Þórir N. Kjartansson.

Hafurssey

Hjörleifshöfði

Hjörleifshöfði er móbergsfjall (220 m) sem stendur út á Mýrdalssandi um 11 km austan við Vík. Búskapur þar lagðist af 1937. Þetta er mjög áhugaverður staður og hellirinn að sunnanverðu er góður staður til að snæða nesti. Hjörleifshöfði stóð eitt sinn í lóni sem hét Kerlingafjörður. Lónið fylltist af sandi í svonefndu Höfðárhlaupi árið 1179. Eldfjallið Katla hefur fleytt sandi umhverfis höfðann og myndað Kötlutanga suður af honum. Hjörleifshöfði er fyrsti dvalarstaður Hjörleifs Hróðmarssonar en hann var fósturbróðir Ingólfs Arnarsonar. Írskir þrælar Hjörleifs ginntu hann í skóginn og drápu hann. Þeir flúðu með kvenfólkið til eyja suður af landinu. Ingólfur og menn hans eltu þrælana og drápu þá alla. Eyjunum var gefið nafnið Vestmannaeyjar eftir þrælunum vegna þess að á þessum árum (um 870) voru allir sem bjuggu vestan við Noreg kallaðir Vestmenn. Starfsfólki Eddu hótelsins og Víkurprjóns er sönn ánægja að veita ykkur nánari upplýsingar um ofanskráða staði.

Hjörleifshöfði

Annað áhugavert

Víkurprjóni

Gangið yfir þjóðveginn að Víkurprjóni. Þetta er eina af elstu prjónastofum landsins. Eigandinn Þórir Kjartansson er þar daglega við störf. Framleiðslan er mjög fjölbreytt vöruval úr ull. Hefðbundin munstur eru höfð í hávegum. Af efri hæðinni er hægt að fylgjast með framleiðslunni.

Víkurprjóni

Ströndin

Farið í kvöldgöngu niður að strönd að austanverðu við Reynisfjall en varist að fara ekki nálægt öldunum því útsogið er mjög kröftugt. Ameríska tímaritið „Island Magazine“ (Eyjablaðið) taldi þessa strönd eina af tíu fallegustu ströndum heimsins.

Ströndin

Gönguleiðir í Vík, Lundinn

Fjölmargar gönguleiðir eru um nágrenni Víkur, merktar og ómerktar og flestar þess virði að fara. Ein sú allra skemmtilegasta er upp á Reynisfjall með veginum fram á syðsta odda fjallsins þar sem enn stendur Lóransstöðin. Þar fram af fjallinu í suðri eru einar stærstu lundabyggðir í heiminum og maður getur staðið bara rétt í seilingarfjarlægð frá þessum einstaka fugli.

Gönguleiðir í Vík, Lundinn Gönguleiðir í Vík, Lundinn

Golfvöllurinn í Vík

Golfvöllurinn í Vík er rómaður sem einn af bestu völlum utan höfuborgarsvæðisins. Þetta er 9 holu völlur og um 2200 metrar á lengd, um er að ræða þrjár brautir par 3, fjórar brautir par 4 og tvær brautir par 5.

Golfvöllurinn í Vík

Sundlaugin og íþróttavöllurinn

Sundlaugin í Vík er nýleg og hentar öllum vel, þar er um að ræða sundlaug í smærri kanntinum þó, barnavaðlaug og heitan pott, nuddtæki er í heitapottinum og barnarennibraut í sundlaugina. Einnig er boðið upp á Saunabað, ljósabekk og tækjasal. Íþróttavöllurinn var byggður upp fyrir unglingalandsmót sem haldið var hér árið 2005 og hefur eina bestu aðstöðu á landsbyggðinni svo ekki er ónýtt að taka nokkra hringi á brautinni.

Sundlaugin og íþróttavöllurinn

Gallery Leirbrot og Gler

Guðrún Sigurðardóttir er stórkostleg listakona, á fáum árum hefur hún náð ótrúlegum markaði hér á íslandi sem og erlendis og er orðin kunn víðsvegar enda er þetta einstaklega falleg hönnun hvort sem í leir eða gleri. Það er alveg þess virði að taka sér göngutúr uppúr til hennar þó ekki sé nema bara til að skoða, þó er verðið hóflegt og listmunirnir svo dýrlegir að fæstir fara tómhentir út!

Afþreying á svæðinu í kring um vík

Ganga á Hjörleifshöfða

Það er upplagt að keyra niður fyrir Hjörleifshöfða og skoða skýlið margrómaða, taka svo göngutúr sem tekur ekki langan tíma upp af vestri hlið höfðans upp á topp, þar er geysifagurt útsýni til fjalla og sávar yfir Mýrdalssandinn sjálfan.

Ganga á Hjörleifshöfða

Gönguleiðir í Þakgili

Þakgil er einstök náttúruperla í fjallasal inn á heiðum Höfðabrekkubæjar. Í dag er þar rekið tjaldsvæði og hafa tjaldstæðaverðir mikla vitneskju um gönguleiðir þar í kring sem eru í senn ægifagrar og háskalegar að hluta.

Gönguleiðir í Þakgili

Veiði í Höfðabrekkulónum

Veiði í Höfðabrekkulónum hefur löngum skilað kátum veiðimanninum heim. Rólegt og þægilegt en samt við þjóðveginn.

Ísklifur í Höfðabrekkujökli

Ævintýraferðir í breyttum jeppa og ísklifur er m.a. það sem hægt er að aðhafast við rætur Mýrdalsjökuls rétt undir eldfjallinu Kötlu, það er alveg tilvalið að njóta þessarar einstöku fallegu náttúru undir jökli.

Fjórhjólaferðir

Við N1 stöðina Víkurskála er starfrækt fjórhjólaleiga, þar er hægt að fara í skemmtilegar og spennandi ferðir allt frá hálftíma upp í 2 klukkutíma um þessa fallegu náttúru sem við höfum hér yfir að ráða.

Reynisfjara og Hálsanefshellir

Reynisfjara er ekki síðri en Víkurfjaran, drangarnir sjást frá öðru sjónarhorni, Dyrhólaey blasir við og hinn frægi Hálsanefshellir sem er stuðlabergshellir er í fjöruborðinu. Dyrhólaey er oftar en ekki talin til náttúruundraheimsins, eyjan er ægifögur gróin og fjölskrúðug, norðan hennar liggur Dyrhólaósinn stilltur að vanda en sunnan á lemur brimið eynna sem aldrei fyrr. Fuglalífið er afar fjölbreytt, Lundinn fágæti, Fýllinn sem allstaðar er á þessu svæði, Ritan, Langvían, Svartfuglinn og svo mætti telja áfram, perla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Hjólabátasigling

Fátt er jafn tilkomumikið og að taka siglingu í kringum Dyrhólaey, sjá fegurðina í landslaginu og fjölskrúðugt fuglalífið.

Hestaleigan Völlum

 Að kynnast íslenska hestinum í fallegri íslenskri náttúru er ævintýri.

Hundasleðar

 Að fara á hundasleða er einstök upplifun fyrir alla jafnt unga sem aldna, í lok ferðar er í boði að þakka vinnumönnunum (hundunum) fyrir.

Snjósleðaferðir

Það er mikið frelsi að þeysa um jökulinn á sleða og láta andvarann blása um andlitið.

Hestaleigan Skógum

Staðsetning til hestaferða getur vart orðið betri.

Skógarfoss

Skógarfoss er einstaklega fallegur foss og sá vatnsmesti hér sunnan heiða, hann sést vel frá þjóðvegi eitt svo fæstir ættu að hafa misst af þessum höfðingja náttúrunnar.

Byggðasafnið

Byggðasafnið að Skógum er eitt verðmætasta safn Íslands. Þórður Tómasson í Skógum hefur eytt stórum hluta ævi sinnar í að sanka að sér hlutum úr sögu landsins og útkoman er stærðar safn í mörgum húsum, bæði safnhúsum og eftirlíkingum af bæjum og kirkjum. Það er ómissandi að hnýsast aðeins í fortíðina og sjá áhöld og aðbúnað landans í gegnum aldirnar.