Gestrisni af gamla skólanum

Frá heimavist til hótels - saga Edduhótelanna í stuttu máli

Gestrisni af gamla skólanum

Í ár höldum við upp á 57 ára afmæli Edduhótelanna og minnumst þess með því að rifja upp fortíðina, upprunann og söguna sem er nánast samofin sögu ferðaþjónustu á Íslandi. Fram eftir síðustu öld voru erlendir ferðamenn sjaldséðir hér á landi. Það var í raun ekki fyrr en með almennum flugsamgöngum yfir Atlantshafið að fólk fór að koma hingað svo einhverju næmi til að skoða náttúruna og njóta landsins. Fram að því var fátt um gistirými eða þjónustu utan stærstu kaupstaða og innlendir ferðamenn gistu í tjöldum eða hjá vinum og kunningjum í sveitunum.

Með bættum efnahag og samgöngum jókst þörfin á þjónustu við ferðafólk hringinn í kring um landið. Við Íslendingar erum vön að bjarga okkur, finna lausnir í hvelli og nýta þá möguleika sem standa til boða. Í þeim anda fæddist sú hugmynd að nýta heimavistarskólana á landsbyggðinni sem hótel yfir sumarmánuðina þegar þeir stóðu auðir og árið 1961 opnaði Hótel Edda í fyrsta sinn að Laugarvatni og á Akureyri. Þótt nú séu Edduhótelin oftar en ekki í sérhönnuðu húsnæði byggjum við enn á þeirri hugmyndafræði að taka á móti gestum okkar með hlýjum og heimilislegum hætti, líkt og gert var í gömlu skólunum fyrir meira en hálfri öld.

Velkomin á Hótel Eddu í sumar.